140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi hættuna sem fylgir því að skyndilega verði veruleg lækkun á fiskverði. Við hv. þingmaður deilum áhyggjum af stöðu efnahagsmála í Evrópu og ég hef oft vakið máls á því hér að ríkisstjórnin þurfi að gera meira til að búa sig undir áframhaldandi efnahagslegar ógöngur Evrópusambandsríkja og þau áhrif sem það mun óhjákvæmilega hafa á Ísland. Óttast ekki hv. þingmaður að eins og málin virðast vera að þróast í Evrópu geti verið talsverðar líkur á því að fiskverð lækki verulega? Hverjar telur hv. þingmaður að yrðu afleiðingarnar ef þessi frumvörp næðu fram að ganga?

Fiskur er nefnilega frekar dýr matvara, oft mjög dýr, en kjúklingur, pylsur, hakk og slíkt er tiltölulega ódýrt. Það selst betur í kreppu en annars. Þegar harðnar á dalnum sýnir reynslan að fólk sparar frekar við sig dýrari mat, eins og fisk. Eins og menn þekkja er Evrópa helsti útflutningsmarkaður okkar fyrir sjávarafurðir og ef fram fer sem horfir, ég leyfi mér að nota það orðalag, frú forseti, því að það virðist ljóst í hvað stefnir, verður töluverður efnahagslegur samdráttur, a.m.k. stöðnun, í stórum hluta Evrópusambandsríkja, ekki bara næstu missirin heldur jafnvel næstu árin. Þegar við búum okkur undir þetta, þurfum við þá ekki meðal annars að líta til áhrifanna á þessa helstu útflutningsgrein okkar, (Forseti hringir.) sjávarafurðir, og taka tillit til þess þegar við samþykkjum frumvörp sem varða greinina?