140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef hlýtt nokkuð á spurningar hv. þingmanna til hæstv. forseta varðandi lengd þingfundarins, bæði áðan og eins undanfarnar mínútur. Þær spurningar sem bornar hafa verið fram hafa verið málefnalegar og eðlilegar og geta tæpast talist undarlegar þegar liðið er á þriðja tímann að næturlagi og ætlunin er að funda á morgun. Ég ítreka að það væri engin ofraun fyrir hæstv. forseta að gefa einhverja vísbendingu um þetta.

Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni að ég er í sjálfu sér ekkert að gagnrýna það þó að af og til sé fundað fram eftir kvöldi eða fram á nótt. Það höfum við gert ítrekað á undanförnum dögum og vikum. En óneitanlega hlýtur (Forseti hringir.) hæstv. forseti að hafa einhverja skyldu gagnvart þingmönnum að gefa til kynna hversu langur fundurinn verður.