140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fór aðeins yfir í kvöld, þá var annar hæstv. forseti í forsetastól, ummæli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formanns Vinstri grænna þegar hann var að velta því fyrir sér hversu skammarlega léleg vinnubrögðin væru orðin hér út af slíkum næturfundum. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er ekki til siðs á Alþingi að halda kvöld- eða a.m.k. næturfundi marga daga í röð …“

Það er líka ljóst, herra forseti, að við höfum þrengt að rétti manna til að tjá sig um mál þegar svona er að verki staðið og það er morgunljóst að umræða um málið mun verða hér einnig á morgun og þá er eðlilegast að gefinn sé skikkanlegur lágmarkshvíldartími á milli daga.

Nú hefur hv. þm. Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur ASÍ, upplýst það að forseti er með þessu að brjóta vinnulöggjöf á Íslandi. Ég vil endilega hvetja forseta til að skoða (Forseti hringir.) þetta í því ljósi og athuga hvort hún er ekki sammála fyrrum yfirlýsingum formanns síns, (Forseti hringir.) formanns Vinstri grænna.

Ég ítreka að ef við eigum að vera hérna fram að vaktaskiptum hálfsjö væri eðlilegt að gera smámatarhlé og við fengjum okkur eitthvað (Forseti hringir.) í gogginn frammi.