140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á það, og ég er sammála henni, að óhófleg skattlagning getur leitt til þess að tekjur sjómanna og fiskvinnslufólks verði minni en ella sem leiðir það af sér að tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga munu lækka í framhaldinu. Ef skattlagningin verður óhófleg mun það leiða til minni umsvifa fyrirtækja annars staðar í atvinnulífinu, sem mun þá væntanlega leiða af sér minni tekjur fyrir ríki og sveitarfélög.

Erum við þá ekki í raun og veru að vega að hagsmunum ríkis og sveitarfélaga og eins heimilanna ef við göngum of hart fram í þessu máli? Hæstv. forsætisráðherra sagði í fréttum í gær að ef þetta yrði ekki samþykkt yrðu íbúar á landsbyggðinni einfaldlega að sætta sig við að framkvæmdum til að mynda í samgöngumálum yrði frestað og fleira mætti nefna. Hvað finnst hv. þingmanni um það upplegg ríkisstjórnarinnar í ljósi þess að ef við göngum of hart fram getur það leitt til þess að tekjur samfélagsins alls muni minnka í heild sinni? Í raun og veru hótar hæstv. ráðherra: Ef þetta mál mitt verður ekki samþykkt þurfa íbúar á Norðfirði eða á Vestfjörðum að þola að samgöngubætur tefjist um einhver ár. Er það ekki ómaklegt og ósmekklegt að tengja þessi mál saman með þessum hætti, sérstaklega þegar við horfum til þess að verði það frumvarp sem við ræðum hér að lögum munu tekjur ríkissjóðs á öðrum sviðum mögulega lækka og þar með svigrúm til að standa fyrir opinberum framkvæmdum?

Ég mundi vilja heyra um þetta nýja ráðslag ríkisstjórnarinnar um að eyrnamerkja ákveðna tekjustofna ákveðnum vinsælum verkefnum. Hvað finnst henni um slíka pólitík?