140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er meingölluð aðferðafræði sem lögð er til í frumvarpinu, þ.e. að byggja á gömlum tölum, á gömlum ársreikningum og í raun og veru á gömlum aðstæðum sem verða síðan ekki endilega til staðar og alls ekki um alla eilífð. Erfitt er að spá fyrir um framtíðina jafnvel bara eitt ár fram í tímann, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á hvað varðar okkar mikilvægu markaði í Evrópu.

Þess vegna höfum við framsóknarmenn og aðrir í stjórnarandstöðunni bent á að skynsamlegra hafi verið að ýta þessu til hliðar og setja inn bráðabirgðaákvæði með því að festa einhverjar tölur. Í því er fólgin áhætta eins og hv. þingmaður bendir á, en á meðan yrði reynt að finna rétta leið. Við höfum lagt til að upphæðirnar í þessu bráðabirgðaákvæði verði hins vegar með því varúðarsjónarmiði að menn gangi ekki of langt. Tekjuskatturinn sem verður af hagnaði fyrirtækjanna tekur eftir sem áður hluta af tekjunum til ríkisins, eins og öllum finnst eðlilegt að ég tel, en sá skattur er af raunverulegum hagnaði fyrirtækjanna.