140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[12:11]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu. Í þingsályktunartillögunni er tæpt á nauðsyn þess að auka erlenda fjárfestingu og sett fram nokkur markmið í þeim efnum. Reyndar fylgir engin framkvæmdaáætlun um hvernig ná megi þeim markmiðum sem sett eru fram í þingsályktunartillögunni.

Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra leggi fyrir vorþing 2012 tímasetta áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og efla markaðs- og kynningarstarf í því skyni.“

Það hljómar ágætlega en nú er þetta hætt að vera vorþing og á leiðinni að verða sumarþing. Nú er komið fram í júní og ekkert bólar á áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðuna. Það er ekki málið að þingsályktunartillagan hafi ekki verið tilbúin í umræður vegna þess að hún kom úr nefnd 13. mars. Það hefur verið nægur tími til þess bæði að ræða þingsályktunartillöguna og afgreiða hana og það hefði verið hægur vandi að koma fram með þessa áætlun sem er algjört lykilatriði í þingsályktunartillögu.

Eins ágætt plagg og þingsályktunartillagan er er ekki hægt að sjá hvaða gagn er að því á næstu mánuðum. Auðvitað væri hægt að gera ráð fyrir að áætlunin yrði sett fram á því sumarþingi sem allt stefnir í að verði, kannski í júlí/ágúst. Ekki mun standa á mér að greiða leið þeirrar áætlunar í gegnum þingið vegna þess að eins og við vitum öll sem fylgjumst með efnahagsmálum er mjög mikil þörf á því að auka hér erlenda fjárfestingar. Fjárfestingar á Íslandi eru í sögulegu lágmarki, þannig hefur það verið alla vega síðustu tvö ár. Eitthvað hafa þó atvinnuvegafjárfestingar tekið við sér, bæði í fyrra og á þessu ári. Það er einkum vegna þriggja framkvæmda. Það er vegna breytinga á álverinu í Straumsvík, og það er gaman að segja frá því að á föstudaginn og laugardaginn var farið í fyrstu breytingarnar í Straumsvík. Þeim er þó engan veginn lokið. Á síðasta laugardag var einnig vígð ný kersmiðja við Fjarðaál á Reyðarfirði. Það er ákaflega glæsileg framkvæmd sem mun bæta aðstöðu fólksins mikið, þ.e. öryggi og vinnuaðbúnað, og auka mjög „rúllunartíma“, ef hægt er að nota það ljóta orð, á því hvernig kerin eru fóðruð í verksmiðjunni. Það mun auka framleiðni og hagnað í verksmiðjunni og styrkja grundvöll hennar og þeirra starfa sem eru í álverinu.

Ekki hefur bólað á annarri erlendri fjárfestingu. Það virðist vera að það gangi ekkert of vel að semja um nýja fjárfestingu. Þó hafa heyrst fréttir af og til af verkefnum eins og í Þingeyjarsýslum þar sem hugmyndir hafa verið uppi um að byggja kísilver, en það verkefni er ekki í hendi enn. Vonandi verður af því þannig að hægt sé að byggja upp starfsemina í Þingeyjarsýslum og nýta orkuna af Þeistareykjum til að skapa framleiðslu sem leiðir til hærri útflutningstekna þjóðarinnar og fleiri starfa á því svæði.

Ef við förum í þingsályktunartillöguna er erfitt að vera ósammála því sem þar kemur fram. Á þeirri forsendu skrifa ég undir nefndarálitið. Ég geri það þó með fyrirvara en fyrirvari minn snýr að því sem ég hef fjallað um, að þrátt fyrir að hér séu fögur markmið sett á blað gagnist þau ekki neitt nema til komi tímasett aðgerðaáætlun.

Ef ég fer yfir stefnu ríkisstjórnarinnar sem varðar þennan málaflokk beint verð ég að segja að það er mikill munur á orðum og efndum. Við sjáum að umhverfi fyrir erlenda fjárfestingu hefur versnað mjög á síðustu þremur, fjórum árum. Það hefur gerst á mörgum sviðum. Þar er sagt að stjórnvöld sækist sérstaklega eftir fjárfestingu sem nýti nýjustu tækni. Ég verð að segja að sú stefna sem rekin hefur verið í menntamálum þjóðarinnar mætir því alls ekki.

Það var ágætisviðtal við rektor Háskólans í Reykjavík í fréttum í gær þar sem kom fram að Háskólinn í Reykjavík væri stærsti tækniháskólinn á Íslandi. Jafnframt kom fram að orðið hefði gríðarlega mikill niðurskurður í þeim háskóla, meiri en í ríkisháskólunum, þannig að þarna fara ekki saman orð og efndir. Finnar fóru þá leið að efla hjá sé menntakerfið með það fyrir augum að til yrði ný virðisaukandi framleiðsla sem byggði á hátækni. Menn hafa talað um að það sé æskilegt og gott markmið en stefna þó ekki að því, til dæmis með því að fjárfesta í tæknimenntun. Á aðalfundum þeirra atvinnurekendasamtaka, Samtaka iðnaðarins og fleiri samtaka sem snúa beint að iðnaði sem byggir á hátæknistörfum, hefur sérstaklega verið tekið fram að bæta þurfi tæknimenntun á Íslandi, að við séum að dragast aftur úr öðrum þjóðum hvað það varðar. Það er það sem snýr að menntakerfinu.

Að vísu er það fagnaðarefni að í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem sett var fram fyrir nokkrum dögum síðan, er talað um að Tæknisjóður Rannís verði efldur að mig minnir um einhverjar 500 millj. kr. á ári núna í þrjú ár, en eins og allir þeir sem kynnt hafa sér þá fjárfestingaráætlun byggir hún á óraunhæfum tekjum og er tengd óraunhæfum tekjum. Þær tekjur eru annars vegar sala íslenskra fjármálastofnana og arður sem tekinn verður úr þeim og hins vegar veiðigjöld.

Eins og greinilega hefur komið fram í mjög vönduðum umsögnum frá bankakerfinu, sérstaklega frá Landsbankanum, að Landsbankinn gerir ráð fyrir því að veiðigjaldafrumvarpið og fiskveiðistjórnarfrumvarpið leiði til þess að bankinn þurfi að afskrifa allt að 31 milljarð vegna sjávarútvegsfyrirtækja sem fara á hausinn, sem rýrir verðmæti og framtíðartekjur bankans vegna þess að fiskveiðistjórnarkerfið mun taka stakkaskiptum og ekki verða jafnarðsamt. Það mun ekki geta staðið undir jafnmiklum fjárfestingum og þar af leiðandi vaxtatekjum til bankanna. Fjárfestingaráætlunin byggir því á óraunhæfum tekjum þannig að það er erfitt að sjá fyrir sér að hægt verði að hrinda henni í framkvæmd nema að tekjugrunninum verði breytt.

Mikil greinargerð fylgir þingsályktunartillögunni. Hún er vönduð og góð. Þar koma fram ýmsar merkilegar staðreyndir. Eitt af því sem erlendir fjárfestar standa frammi fyrir þegar þeir taka ákvörðun um fjárfestingu í einhverju öðru landi er að þeir skoða reglufestuna sem gildir í því landi. Á bls. 27 í greinargerðinni kemur fram að árið 2011 er stjórnmálaleg áhætta á Íslandi, sem væri mælikvarði á reglufestuna, með því mesta sem mælist í heiminum. Þau lönd sem við erum flokkuð með eru Norður-Afríkuríki, Kína, Rússland og önnur slík ríki sem eru þekkt fyrir að fylgja ekki reglufestu heldur hentistefnu í lagasetningu og reglugerðarumhverfi. Það er eitur í beinum erlendra fjárfesta, enda sjáum við að erlend fjárfesting á Íslandi er í sögulegu lágmarki vegna lítils áhuga erlendra fjárfesta á landinu. Þeir erlendu fjárfestar sem þó hafa fjárfest voru hér fyrir, þ.e. stóru álfyrirtækin sem þekkja umhverfið. Þeir verða þó að taka áhættu varðandi þá fjárfestingu sem þeir hafa þegar farið í til að viðhalda samkeppnisstöðu fyrirtækja sinna svo þau verði ekki undir í samkeppni við önnur álfyrirtæki í heiminum.

Þá höfum við talað um menntunina og pólitísku áhættuna. Síðan er það skattumhverfið sem hefur sífellt orðið óhagstæðara fyrir erlenda sem innlenda fjárfesta. Stöðugt hefur sigið á ógæfuhliðina. Verið hafa örar og ómarkvissar breytingar á skattkerfinu, sem er sérstaklega slæmt, og svo virðist vera sem það sé meiningarmunur á milli stjórnvalda og erlendu fjárfestanna sem þó eru hér um hvernig túlka beri fjárfestingarsamningana sem stjórnvöld hafa gert við þessi fyrirtæki. Við sjáum til dæmis að það standa deilur um hvernig meðhöndla beri kolefnaskatt. Erlendu fjárfestarnir halda því fram að þessi fyrirtæki hafi gert samkomulag við stjórnvöld um að ekki yrði lagður á þá kolefnaskattur og þess vegna greiddu álfyrirtækin tekjuskatt fyrir fram, en svo virðist vera sem skilningur stjórnvalda sé allt annar.

Ég er þeirrar skoðunar að ótvírætt sé að slíkt samkomulag hafi verið gert, en burt séð frá því hvor hefur rétt fyrir sér er þarna óvissa sem verður til þess að aðrir erlendir fjárfestar, sem hafa ef til vill haft áhuga á því að fjárfesta á Íslandi, gera það ekki. Það er afar slæmt. Auk þess hefur tekjuskattur á arð fyrirtækja hækkað og allt reglugerðarumhverfi hefur stífnað.

Enn önnur hindrun sem enn hefur ekki verið rutt úr vegi þrátt fyrir að fjöldi virtra hagfræðinga hafi bent á leiðir til þess, eru gjaldeyrishöftin. Gjaldeyrishöftin eiga fjögurra ára afmæli núna í október. Þau voru sett í upphafi til þess að vera í fjóra til sex mánuði. Það er ljóst að gengið hefur afar hægt að afnema gjaldeyrishöftin og það eru litlar eða engar vísbendingar um að það verði gert núna á næstunni. Ég er þeirrar skoðunar að allt of hægt hafi verið farið. Það hefði verið hægt að ryðja þessum höftum úr vegi. Ég tel að sú hræðsla sem menn virðast vera haldnir þegar kemur að því að fjármagn streymi úr landi í kjölfar afnáms haftanna eigi sér varla stoð í raunveruleikanum. Eða hver trúir því til dæmis að ef gjaldeyrishöft yrðu afnumin mundu erlendir fjárfestar, sem núna eiga hér ríkisskuldabréf og alls konar skuldapappíra sem gefa ágætisvexti, rjúka til og selja þessi tryggu bréf sem gefa af sér ágætisávöxtun og kaupa til dæmis ríkisskuldabréf Grikklands eða Spánar eða Portúgals eða þeirra ríkja?

Ljóst er að það er mikil áhætta í heiminum í dag og fáir öruggir fjárfestingarkostir. Ísland er að rétta úr kútnum þótt hægt sé og allt of hægt miðað við hvernig hlutirnir hefðu getað gengið ef rétt hefði verið haldið á málum. Ísland er ágætisfjárfestingarkostur þegar kemur að þessum hlutum, en pólitíska áhættan, hræðslan við stjórnvöld, að stjórnvöld breyti lögum og reglugerðum fyrirvaralaust án skynsemi fælir frá. Við höfum séð það undanfarin ár að skynsemi fylgir ekki alltaf reglugerðarbreytingum heldur virðist slíkt fremur stjórnast af bloggsíðum, skoðanakönnunum, illa ígrunduðum fyrirsagna dagblaða og öðru slíku í stað þess að gerðar séu úthugsaðar breytingar á skattkerfinu ef gera þarf breytingar á því. Breytingarnar ættu að vera gerðar til að lagfæra skattkerfi, ekki til að flækja það og koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu, eins og við sáum um til dæmis varðandi skattleysi erlendra aðila, en meðferð þess máls fældi erlend fyrirtæki frá landinu og leiddi til þess að ríkissjóður varð af miklum tekjum.

Tími minn er að verða búinn. Þrátt fyrir að ég hafi talið upp galla virði ég þá viðleitni sem fram kemur í þingsályktunartillögunni, en ég tek það fram að ég sakna þess mjög að ekki skuli vera staðið við það sem sett var fram í þingsályktunartillögunni, að hæstv. ráðherrar leggi fram tímasetta áætlun á vorþingi 2012 um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands.