140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við verðum að hafa lagaumhverfi á Íslandi og starfsumhverfi þannig að einstaklingsframtakið njóti sín, þannig að þeir einstaklingar sem eru með fínar hugmyndir geti komið þeim á framfæri, geti stofnað fyrirtæki og það fyrirtæki sé ekki drepið af ríkisvaldinu með einhverjum hætti, ég er sammála hv. þingmanni um það.

Ég held hins vegar að það sé ekkert að því að stjórnvöld á hverjum tíma séu með eitthvert stuðningsbatterí til að styðja við atvinnulífið, til að styðja við atvinnugreinar sem þurfa á því að halda eða hugmyndir sem fæðast einhvers staðar. Ég kannast t.d. við eina hugmynd hér í iðnaði sem fæddist úti á landi og farið var með til Fjárfestingarstofu og sagt: Getið þið hjálpað okkur? Verkefnið var sett í ferli sem gerði að verkum að það varð opinberara en ella og ekkert nema gott um það að segja að fá slíka hjálp og aðstoð frá Fjárfestingarstofu.

Ég kann ekki að segja hvort Vesturlönd eða fyrirtæki mundu vilja snúa sér beint til einkaaðila án viðkomu hjá ríkinu. Trúlega á það við í einhverjum tilfellum. Ef við værum með alfrjálst stjórnkerfi eða hagkerfi, þ.e. engin ríkisafskipti, engar ríkisstofnanir skiptu sér af einu eða neinu, þá yrði það vitanlega að vera þannig. Ég held að í mörgum nágrannalanda okkar séu stofnanir eða batterí sem styðja við atvinnulífið með einhverjum hætti. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég man bara eftir Noregi í svipan en ég ímynda mér að víðar sé verið að aðstoða.

Ég tek undir það að við megum passa okkur á að búa ekki til kerfi sem eyðileggur einkaframtakið. Ég tek líka undir það að við megum ekki búa til kerfi þar sem (Forseti hringir.) einstaklingarnir ráða öllu. Það er framsóknarmaður sem talar og vill hafa sitt lítið af hvoru.