140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja máls á nokkru sem ekki hefur mikið verið rætt í þinginu og færa okkur aðeins út fyrir það dægurþras sem við höfum verið upptekin af. Nýlega hafa þær ömurlegu, ógeðfelldu og ógeðslegu fréttir borist frá Sýrlandi að verið sé að murka lífið úr börnum og nota þau sem mannlega skildi í þeim átökum sem eiga sér stað í því samfélagi. Það hefur viðgengist lengi og alþjóðasamfélagið stendur ekki hjá aðgerðalaust en það hefur ekki náð samkomulagi um hvernig bregðast beri við því ógeðslega ástandi sem þarna er.

Nú er komið sumar á Íslandi og börnin okkar hlaupa glöð út í sumarið en á sama tíma berast þessar fréttir. Ég hvet okkur til að tala til alþjóðasamfélagsins sem heildar og segja að þessu beri að linna, þetta verður að stöðva. Það er ekki hægt fyrir okkur, hvar sem við erum, hvar sem við stöndum í pólitík, hvar sem við stöndum varðandi þau mál sem við erum alla jafnan að rífast um, að sitja aðgerðalaus og horfa upp á þetta.

Ég vildi koma hingað og vekja athygli á þessu, frú forseti, í vanmætti mínum og okkar allra í þeirri von að hvatning á borð við þessa og þær sem maður sér annars staðar hafi áhrif. Hæstv. utanríkisráðherra hefur fordæmt þetta á alþjóðavettvangi og með yfirlýsingum og því ber að fagna en nú vonast ég til þess að við getum með einhverjum ráðum notað þær stofnanir, hvort sem það eru Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið eða önnur tæki sem við höfum á alþjóðavettvangi til að ráða bót á þessu ástandi vegna þess að þetta getur ekki gengið svona áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)