140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra þann mikla samhljóm sem er í þingsal í máli þeirra þingmanna sem tekið hafa til máls í dag. Ég held að okkur öllum hafi brugðið við þær fréttir sem borist hafa frá Sýrlandi og ég vil hvetja utanríkisráðherra til að halda áfram að koma á framfæri mótmælum Íslendinga á alþjóðavettvangi við því sem er að gerast þarna. Við erum lítil þjóð en við skiptum öll máli og við höfum lagt mjög mikla áherslu á konur, frið og öryggi í samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins þannig að þetta er algerlega í anda þess sem við viljum leggja áherslu á, þ.e. öryggi kvenna, öryggi barna og friður í heiminum.

Ég vil líka benda á að við á Alþingi vorum sammála um að fara af stað með rannsókn á sparisjóðunum. Samkvæmt ályktun Alþingis á sú rannsóknarnefnd að skila skýrslu eigi síðar en 1. júní 2012 þannig að það væri áhugavert að heyra frá forseta hvað þeirri vinnu líður. Það er mikilvægt að hafa í huga að við lögðum ekki aðeins til að rannsóknin næði til aðdraganda hrunsins heldur töluðum við í lokaorðum greinargerðarinnar sem fylgdi þingsályktunartillögunni um að rannsóknin ætti einnig að taka til tímans eftir hrun enda eru áhrif hrunsins enn að koma í ljós hjá sparisjóðum allt land. Ég held að það verði mjög mikilvægt og áhugavert fyrir okkur öll að sjá niðurstöður þessarar vinnu og vonandi getur hún hjálpað okkur við að styðja við áframhaldandi starfsemi sparisjóðanna hringinn í kringum landið.