140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir að efna til þessarar umræðu um evruvandann, því þó að það gríðarlega stóra mál hafi verið helsta umfjöllunarefni fjölmiðla í nánast öllum Evrópulöndum undanfarin ár hefur að miklu leyti verið litið fram hjá þessu máli á Íslandi, ekki hvað síst hér í þinginu sem er óneitanlega undarlegt í ljósi þess að Ísland er að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Eins og fram kom í máli hv. þingmanns liggur það ljóst fyrir að Evrópusambandið mun gjörbreytast á komandi missirum og árum. Það er í raun enginn málsmetandi maður í stjórnkerfi Evrópusambandsins eða við stjórn þeirra ríkja sem það mynda sem heldur öðru fram en að þau vandamál sem Evrópusambandið er nú að ganga í gegnum muni gjörbreyta eðli Evrópusambandsins. Annaðhvort muni það losna í sundur eða færast miklu nær því að verða þjóðríki. Margir, sérstaklega forvígismenn Evrópusambandsins, eru ófeimnir við að lýsa því yfir að þannig eigi þróunin að verða. Þannig er vissulega unnið þessa dagana, m.a. með því að taka stöðugt meiri völd af ríkjum Evrópusambandsins, ekki hvað síst til þess að hafa stjórn á fjármálum sínum.

Í breska blaðinu Times var upplýst um það fyrir tveimur vikum, ef ég man rétt, að á Írlandi hefðu laun lækkað um 20% frá því að evrukrísan hófst, en gert væri ráð fyrir að kaupmáttur Íra þyrfti að lækka um þriðjung í viðbót til að Írar gætu áfram verið samkeppnishæfir innan evrunnar. Í Þýskalandi hins vegar hefur kaupmáttur nánast staðið í stað í um áratug.

Það hefur reynst mjög erfitt að samræma ólíka efnahagsstöðu ríkja innan evrusvæðisins og verður ekki gert án þess að einhvers konar allsherjaryfirvald Evrópusambandsins taki að sér stjórn fjármála ríkjanna. Þetta gjörbreytir Evrópusambandinu og þetta gjörbreytir (Forseti hringir.) stöðu Íslands sem umsóknarríkis og er óhjákvæmilegt fyrir okkur að endurmeta umsóknina.