140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:25]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Fólk sem kemur skuldum sínum og annarra yfir á almenning hefur að mínu mati framið glæp. Glæpurinn felst í því að slá eign sinni á fjármagn sem ekki er lengur hægt að nota til að þjónusta veikt fólk, börn og gamalmenni. Ákæra verður alla þá sem beittu glæpsamlegum aðferðum fyrir og eftir hrun við að koma skuldum sínum og annarra yfir á skattgreiðendur.

Í krafti fullrar innstæðutryggingar hefur markvisst verið unnið að því frá hruni að koma skuldum einkaaðila yfir á skattgreiðendur. Skattgreiðendur voru ekki aðeins látnir taka á sig að tryggja innstæður einstaklinga upp að rúmum 3 milljónum heldur allar innstæður allra að fullu. Innstæður umfram lágmarkstryggingu námu 1.050 milljörðum við hrun og þær voru í eigu innlendra lögaðila, lífeyrissjóða og sveitarfélaga. Fyrrverandi fjármálaráðherra samdi við kröfuhafa um að færa léleg útlánasöfn gömlu bankanna yfir í nýju bankana til að þurfa ekki að reiða fram fé fyrir innstæðutryggingunni.

Frú forseti. Sveitarfélög, lífeyrissjóðir og einkaaðilar lögðu inn í SpKef um 20 milljarða frá hruni. Þá 20 milljarða var ríkið að stórum hluta búið að tryggja einu sinni þegar innstæðurnar voru færðar úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana. Nú falla þessar innstæður aftur á skattgreiðendur sem þurfa að leggja þrotabúi SpKef til um 20 milljarða. Þetta er glæpsamlegt athæfi og við verðum að afnema fulla innstæðutryggingu, strax.