140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

þjónustusamningur við Reykjalund.

[10:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að á undanförnum þremur árum hefur Reykjalundur tekið þátt í þeim niðurskurði sem að honum hefur verið beint og hefur skorið niður í kringum 20% og þurft að segja upp fjölda starfsmanna. Um áramótin var gerður fimm ára samningur við Heilbrigðisstofnunina í Hveragerði og er það vel þó svo að venjulega séu ekki gerðir þjónustusamningar nema til eins árs í senn. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að Reykjalundur fái áþekkan samning, fimm ára samning, þannig að öryggi starfseminnar sé tryggt.

Ég gerði það að umtalsefni í frumvarpi um starfsendurhæfingarsjóði að ég óttaðist að forgangsröðun fjármuna ríkisins til starfsendurhæfingarstöðva gæti komið niður á stofnunum eins og Reykjalundi, Kristnesi, Grensási og fleiri slíkum starfsendurhæfingarstöðvum og ég óttast það enn í ljósi þess að ekki hefur verið gerður þjónustusamningur við Reykjalund. Ég skora á hæstv. ráðherra, um leið og ég þakka honum þau svör sem hann veitti hér, að beita sér fyrir því að slíkur þjónustusamningur verði gerður til langframa þannig að slíkar stofnanir viti að þær hafi ákveðið starfsöryggi til að vinna eftir.