140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

þjónustusamningur við Reykjalund.

[10:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram út af umræðunni að ég veit ekki betur en að Reykjalundur fái greitt samkvæmt fjárlögum þó að samningur liggi ekki fyrir. Þannig er almennt gert, fjárveiting er ekki skorin út þannig að hún hverfi. Starfsemin á því að geta haldið áfram með svipuðum hætti.

Varðandi það að gera lengri samninga, sem ég tek heils hugar undir að við þyrftum að gera, þá þurfum við auðvitað líka að hafa tekjuhluta ríkisfjármála svolítið á hreinu. Ég held að það hafi stundum verið þannig að maður hafi ekki skilið samhengi hlutanna þegar slegist um að ná 1, 2, 3, 4 milljörðum í viðbót til að geta rekið ríkissjóð og menn leggja svo fram tillögur um skattalækkanir o.s.frv. og við eigum á sama tíma að auka þjónustuna hjá sama ríkiskerfi. Því miður gengur það ekki upp eins gott og ef svo væri.

Ég tek heils hugar undir að við þurfum að gera samninga við þessa aðila. Ég ætla að vona að þeir náist. En ég deili ekki þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur varðandi starfsendurhæfinguna, enda er það okkar hlutverk að tryggja að þar sé um að ræða viðbót en komi ekki í staðinn fyrir þær stofnanir sem við höfum verið að reka, sérstaklega af þeim gæðum sem Reykjalundur rekur sína starfsemi.