140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Stjórnmál á Norðurlöndum undanfarna áratugi, frá stríðslokum má segja, í þeim þremur löndum sem hér er átt við hafa vissulega mótast af samvinnu milli meiri hluta og minni hluta og stundum reyndar milli minni hluta í stjórn og meiri hluta utan stjórnar. Grundvöllur þeirrar samvinnu er virðing fyrir lýðræðislegum leikreglum og virðing fyrir vilja kjósenda í þessum löndum. Þar hefur skapast sú hefð og góða venja að mikið samráð er haft milli stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna áður en kemur að afgreiðslu mála. Við höfum búið við átakahefð hér, því miður, og berum enn þá merki hennar.

Grundvöllur samvinnustjórnmála og samræðustjórnmála er hins vegar sá að sá meiri hluti sem kjósendur hafa valið sér fari fram í meginatriðum með þá stefnu sem hann hefur fengið styrk til að koma í framkvæmd. (Gripið fram í.) Skylda minni hlutans, sem vissulega hefur rétt til áhrifa og hefur rétt til þess að geta haft áhrif á stefnu meiri hlutans, er sú að fara fram af virðingu, ekki við stjórnmálamenn meiri hlutans heldur við þá kjósendur sem gáfu meiri hlutanum umboð sitt til að móta stefnu í hinum stærstu málum, og að taka þátt í því með meiri hlutanum að sú stefna komist til framkvæmda vegna þess að minni hluti verður meiri hluti og meiri hluti verður minni hluti. Það er eðli lýðræðisins.