140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það hefur kannski ekki komið á óvart að þótt við séum hvort í sínum stjórnmálaflokki deilum við að mörgu leyti sömu skoðunum á þessu málefni enda bæði búsett á landsbyggðinni og þekkjum þar af leiðandi þá hlið málsins býsna vel.

Fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið þar sem fjallað er um leigufélag sem á að stofna, með leyfi forseta:

„Ætla má að sjóðurinn reyni að selja leigufélagið eins fljótt og auðið er en velta má því upp hvort það muni reynast sjóðnum erfitt í ljósi þess að eignasafn hans dreifist mjög víða um landið.“

Ég hygg að í þessari setningu komi í raun fram það sjónarmið sem við höfum haldið á lofti, þ.e. að eignir úti á landi hafa ekki verið á sama stalli í það minnsta og eignir á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því að fá fjárveitingar til að kaupa eða byggja húsnæði. Við þekkjum það að fjármálastofnanir drógu lappirnar eða settu jafnvel mun lægra þak á lánveitingar út á land en á höfuðborgarsvæðinu þannig að andinn í þessari setningu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er í sjálfu sér ekkert óeðlilegur. Hann er kannski staðfesting á því sem sumir halda, að það sé ekki það sama að eiga eignir úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Hér er einmitt talað um eignasafnið.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki áhugavert í ljósi þessara hugmynda og pælinga um Íbúðalánasjóð að fá yfirlit yfir skilvísi gagnvart sjóðnum, þ.e. hvort endilega sé (Forseti hringir.) áhættumeira að lána út á land en á höfuðborgarsvæðinu.