140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að koma inn á spurningu hv. þingmanns þá eru því miður ákveðin svæði á landinu sem eru verr sett þegar að þessu kemur, þ.e. sveitarfélög, en það er ekki svo mikill vandi þar sem ég þekki best til.

Það er hins vegar staðreynd að þeir fjármunir sem settir voru á sínum tíma í varasjóð til að mæta vanda sveitarfélaganna voru einfaldlega of litlir. Það voru allt of litlir fjármunir settir í að vinda ofan af þeim mikla mun sem var á stöðu lána og raunverulegu fasteignaverði íbúða. Vandi sveitarfélaganna var kannski fyrst og fremst sá að það náðist ekki að setja nógu mikla fjármuni í verkefnið. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að Íbúðalánasjóður fái heimildir og tæki til að bregðast við þeim vanda sem er enn til staðar á nokkrum stöðum á landinu.

Að öðru, í umsögn fjármálaráðuneytisins er einnig rætt um fasteignamat og verðmæti eigna. Ég ætla að lesa aðeins upp úr þessu áliti, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið lögfest mun sjóðurinn ekki heimila lánveitingar á eignum þar sem fasteignamat er umfram 50 millj. kr. Með því er komið til móts við athugasemdir um starfsemi sjóðsins að því leyti að lánveitingar til kaupa á mjög verðmætu húsnæði rúmist ekki innan félagslegra markmiða sjóðsins.“

Ég velti fyrir mér þegar ég les þetta hvort við séum að segja að Íbúðalánasjóður sé eingöngu félagslegur sjóður og eigi að vera það. Þá velti ég fyrir mér hvort litið sé á landsbyggðina sem félagslegt fyrirbæri því að ég fæ ekki séð að það sé nokkur breyting á viðhorfi fjármálastofnana til að lána til fasteignakaupa úti á landi. Því verðum við að gæta þess að Íbúðalánasjóður sé líka tæki á markaði til að (Forseti hringir.) bregðast við á þeim svæðum þar sem þessi staða er komin upp.