140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:56]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við höfum sama skilning á mikilvægi þess að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem það liggur hér fyrir. Þó að það sé ágætt að taka hér langan eldhúsdag og ræða dögum saman framtíðarstöðu, hlutverk og verkefni Íbúðalánasjóðs skiptir það öllu máli núna að Alþingi einbeiti sér að því að afgreiða það erindi sem er hér uppi á okkar borðum og hvernig menn hafa hugsað sér viðbrögð við þeim óskum og kröfum.

Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að við hljótum auðvitað að vilja hafa áhrif og stýra og móta það sjálf hvernig við viljum byggja upp okkar félagslegu aðstoð og stuðning varðandi íbúðarkaup og fjárfestingar landsmanna í íbúðarhúsnæði. Þó að það komi á okkur stífar kröfur frá Brussel, eða hvaðan sem er, er eðlilegt að við fylgjum þeim meginlínum sem við höfum undirgengist í þeim efnum en við verðum að horfa til þeirrar sérstöðu sem er hér á Íslandi hvað þetta efni snertir, bæði sögulega og hvernig við stöndum að málum varðandi félagslegan jöfnuð líka.

Ég fagna því að við jafnaðarmennirnir Illugi Gunnarsson erum sammála um mikilvægi Íbúðalánasjóðs og þá ekki bara fyrir einhver afmörkuð svæði á landinu. Það gildir auðvitað fyrir landið í heild og sá rammi sem við höfum teiknað upp byggir á þeim forsendum að það sitji allir við það borð að geta átt kost á því að eignast húsnæði, en við gleymum þá ekki heldur því að aðrar leiðir eru í boði til að hafa þak yfir höfuðið. Þar þurfum við að standa saman um að mæta réttlæti og jöfnuði hvort heldur viðkomandi velur að leigja húsnæði af sjálfum sér eða af þriðja aðila.