140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem hann veitti í þessu síðara andsvari sínu. Miðað við þær aðstæður sem hann lýsir ætti einmitt að vera ágætissvigrúm á markaði fyrir fjármálastofnun til að koma inn þar sem aðrar fjármálastofnanir sinna ekki hlutverki sínu. Ég veit að vísu ekki hversu stór markaðurinn er fyrir húsbyggjendur eða húskaupendur vítt og breitt um landið með tiltölulega rúma og góða greiðslugetu. Það er kannski bjartsýni af mér að tala þannig en ég mundi halda að þarna væri svigrúm og tækifæri sem þeir bankar sem nú starfa í landinu láta fram hjá sér fara því að það hlýtur að vera markmið hjá þeim að ná góðum greiðendum í viðskipti við sig.

Ég hef meiri áhyggjur almennt og til lengri tíma litið af þeim sem hafa minni greiðslugetu. Eins og ég sagði í svari við andsvari hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þá útiloka ég ekki með öllu að hlutverk ríkisins og Íbúðalánasjóðs geti einmitt verið með einhverjum slíkum hætti að aðstoða, fylla upp í einhvers konar tómarúm sem er á markaði miklu frekar en að vera í harðri samkeppni á markaði þar sem raunveruleg samkeppni er fyrir hendi, þ.e. starfsemin beinist þá frekar í þann farveg að lána til svæða eða tekjuhópa eða einhverra slíkra sem ekki eiga greiða aðkomu annars staðar en að vera í beinni samkeppni við hvaða fjármálastofnun, lífeyrissjóð eða banka sem er á markaði (Forseti hringir.) þar sem samkeppnin er mikil og virk.