140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[12:48]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði áfram um málið eftir að 2. umr. fór fram að beiðni minni sem var talsmaður og framsögumaður þessa máls. Nefndin hafði afgreitt málið til 2. umr. með tillögu til breytingar sem fól í sér rýmkun heimildar Matvælastofnunar til aðgangs að upplýsingum sem tollyfirvöld geyma. Upp komu áhyggjur af því að efni þessarar breytingartillögu nefndarinnar kynni að einhverju leyti að fara í bága við sjónarmið sem komið höfðu fram í umsögn Persónuverndar um málið. Af þeim sökum óskaði ég þess í þingræðu við lok 2. umr. að þessu máli yrði vísað til nefndarinnar á nýjan leik að lokinni umræðunni.

Í téðri umsögn Persónuverndar kemur fram að skoðun stofnunarinnar á frumvarpinu hafi leitt í ljós að vinnsla upplýsinga samkvæmt því gæti stuðst við tiltekin ákvæði persónuverndarlaga að því gefnu að miðlun upplýsinga frá tollyfirvöldum til Matvælastofnunar yrði afmörkuð við tiltekna flokka upplýsinga. Um leið og framangreindar áhyggjur komu upp leitaði framsögumaður málsins til Persónuverndar og óskaði álits hennar á breytingartillögum nefndarinnar. Hún gat hins vegar ekki brugðist við fyrir lok 2. umr., en 14. júní sl. var álit Persónuverndar lagt fram þar sem fram kom að hún telji breytingarnar ekki koma til móts við ábendingar sem stofnunin setti fram í fyrri umsögn sinni. Þess vegna ítrekaði stofnunin efni fyrri umsagnar sinnar og leggur áherslu á að aðgangur Matvælastofnunar að persónugreinanlegum upplýsingum verði afmarkaður á þann veg að samrýmist grundvallarreglum um meðalhóf sem meðal annars koma fram í 7. gr. persónuverndarlaga.

Það er álit atvinnuveganefndar að fara verði fram af varfærni þegar löggjöf kann að fela í sér skerðingu á þeim réttindum borgaranna sem njóta verndar VII. kafla stjórnarskrár. Í ljósi þess leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem fylgir með á nefndaráliti þessu.

Hv. þm. Kristján L. Möller, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita auk framsögumanns sem hér stendur hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Björn Valur Gíslason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson.