140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[16:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, sem snertir sérstaklega sparisjóðina í landinu.

Eins og við þekkjum hefur tilvist sparisjóðanna verið ógnað á undanförnum árum. Það má kannski segja að sparisjóðirnir standi ekki jafnfætis stóru bönkunum þremur vegna þess að í kjölfar hrunsins voru stóru bankarnir þrír endurskipulagðir, afsláttur veittur vegna hrunsins á meðan sparisjóðirnir margir hverjir sátu eftir með sárt ennið og hafa þurft að afskrifa heilmikið af sínu útlánasafni vegna hrunsins, því að mikill fjöldi fyrirtækja varð gjaldþrota og miklir erfiðleikar hjá mörgum heimilum í landinu. Það hefur því haft sitt að segja varðandi starfsumhverfi sparisjóðanna að ríkisstjórnin skuli ekki hafa reynt að grípa til einhverra úrræða til að minnka þann umfangsmikla vanda sem átti sér stað í kjölfar hrunsins sem m.a. hefði getað verið gert með því að standa fyrir einhverri leiðréttingu á lánum heimila og fyrirtækja, eins og við framsóknarmenn lögðum til, ekki með það að markmiði að ríkissjóður mundi bera skaðann af því heldur þegar bönkunum var skipt upp og þá hefðu kröfuhafar þurft að bera stóran hluta af þeim kostnaði. En það er önnur saga og fortíðinni fáum við ekki breytt en vonandi höfum við eitthvað að segja um framtíðina.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að við viljum sjá fjölbreytni á lánamarkaði en ekki fábreytni. Ef fer fram sem horfir er veruleg hætta á því að sparisjóðirnir í landinu týni tölunni og renni inn í stóru viðskiptabankana þrjá. Íslenskur fjármálamarkaður verður þá algjör fákeppnismarkaður þar sem þrír stórir aðilar munu skipta á milli sín þeirri köku. Það er ekki sú framtíðarsýn sem við framsóknarmenn höfum ályktað um. Þess vegna höfum við í þinginu lagt fram fyrirspurnir og tillögur um það að efla sparisjóðaformið í landinu. Aðgerðaleysið sem fylgt hefur stefnu núverandi stjórnar hefur það leitt af sér að sparisjóðirnir eru í mjög erfiðri stöðu og úr því þarf að bæta. Sparisjóðirnir eru nefnilega hornsteinn í héraði og hafa gríðarlega mikið fylgi á starfssvæði sínu. Fólk sem skiptir við sparisjóð sinn er samkvæmt könnunum mjög ánægt með þá þjónustu sem sparisjóðirnir hafa veitt og mikil tryggð sem fylgir því, og ég þekki það sjálfur að skipta við sparisjóð. Ég tel að við hér á Alþingi þurfum að grípa til aðgerða til að efla sparisjóðina.

Nú erum við með frumvarp sem hefur verið afgreitt frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar — ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara — sem á að greiða fyrir því að sparisjóðirnir geti endurfjármagnað sig og geti þar af leiðandi eflt starfsemi sína og veitt viðskiptamönnum sínum betri þjónustu. Trúlega hefur sjaldan eða aldrei verið eins mikilvægt að sparisjóðafjölskyldan eflist til muna á sama tíma og við horfum upp á að viðskiptabankarnir þrír eru að draga saman seglin, eru að minnka þjónustu við hinar dreifðu byggðir. Eins og við þekkjum hafa sparisjóðirnir sinnt mjög mikilvægu samfélagslegu hlutverki, haldið úti þjónustuútibúum á sama tíma sem arðurinn af starfseminni hefur að mjög miklu leyti runnið til líknarmála, samfélagslegra verkefna, menningar, íþróttastarfs og fleira mætti nefna. Þess vegna er ekki að undra að margir verði hryggir yfir því að horfa upp á þá þróun sem hefur átt sér stað í starfsemi sparisjóðanna allt frá hruni.

Ég vil að það komi fram að í vinnu nefndarinnar kom almennt í ljós að þeir sem gáfu umsögn og kallaðir voru fyrir efnahags- og viðskiptanefnd voru mjög jákvæðir gagnvart frumvarpinu. Ég óskaði eftir því á fundi nefndarinnar að fulltrúar allra þeirra sveitarfélaga sem sparisjóðir eiga starfssvæði sitt á kæmu á fund nefndarinnar. Við héldum fundi með örugglega um 20 sveitarfélögum og satt best að segja voru umsagnirnar almennt jákvæðar hvað þetta mál varðar, þ.e. að með þessum breytingum verði sparisjóðum gert auðveldara að fjármagna sig en í því árferði sem uppi er í dag.

Ég ætla hins vegar ekki að leyna þeim vonbrigðum mínum að það sé almennt sjónarmið vegna þess að hér er verið að opna á það að breyta rekstrarformi sparisjóðanna úr núverandi fyrirkomulagi í hlutafélag. Ég sagði að ég væri á þessu máli en með þeim fyrirvara að þær breytingartillögur sem ég mun mæla fyrir á eftir verði samþykktar. Ég tel að ef þær verða ekki samþykktar sé Alþingi Íslendinga að gefast upp, alger uppgjöf sé gagnvart því rekstrarformi sem sparisjóðirnir eru í dag. Nú þurfa þingmenn að standa í lappirnar. Við heyrum það vítt og breitt um landið að stuðningsmenn þessa kerfis eru margir og að sjálfsögðu eigum við að standa vörð um það að auka fjölbreytni á fjármálamarkaði, styðja við stofnanir sem þekkja vel til innviða smærri samfélaga, hafa mjög ríkan skilning á þörfum atvinnulífs smærri og meðalstórra fyrirtækja í viðkomandi byggðarlögum, þekkja vel til aðstæðna hjá þeim fjölskyldum sem skipta við sjóðinn. Það er því tími til kominn að við snúum vörn í sókn fyrir sparisjóðina í landinu.

Ég mæli fyrir breytingartillögu sem hljóðar svo, með leyfi frú forseta:

„Skattaðili sem kaupir stofnfjárbréf við stofnfjáraukningu í sparisjóði getur dregið kaupverð þeirra bréfa frá skattskyldum tekjum sínum á tekjuárinu. Sama gildir um sparisjóði í sömu félagaformum heimilisfasta innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og nema verðmæti keyptra stofnfjárbréfa umfram verðmæti seldra stofnfjárbréfa í sams konar sparisjóðum, en þó aldrei meira en 300 þús. kr. hjá einstaklingi og 600 þús. kr. hjá hjónum. Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má með sömu skilyrðum draga mest 15 millj. kr. Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði frádráttar.“

Í öðru lagi legg ég til:

„Ráðherra skal við gildistöku laga þessara skipa þriggja manna starfshóp til að meta árangur af framkvæmd laganna og skoða hvaða leiðir séu færar til þess að styrkja félagaform sparisjóða sem sjálfseignarstofnana. Starfshópurinn skal skila ráðherra tillögum sínum og drögum að lagabreytingum eigi síðar en 1. október 2012. Ráðherra skal gefa Alþingi skýrslu um störf hópsins og leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum, eftir því sem efni standa til.“

Ég er sem sagt með tvær breytingartillögur er snerta starfsumhverfi sparisjóðanna sem ég tel mjög brýnt að við samþykkjum á lokadögum þingsins vegna þess að þetta snertir tilvistargrundvöll sparisjóðafjölskyldunnar í landinu. Nú ætla ég að gera grein fyrir fyrri breytingartillögunni sem er í raun og veru samhljóða þeim reglum sem átti að innleiða þegar styðja átti við nýsköpunarfyrirtæki hér á landi en hefur ekki verið tekið í gildi en þetta er samhljóða þeim áformum sem þá voru uppi.

Frú forseti. ESA fetti fingur út í þá breytingu en tel ég að sérstaða sparisjóðanna og aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði séu það sérstakar að við getum ívilnað því formi sem sparisjóðakerfið er með því að samþykkja þessa breytingartillögu. Í greinargerð með tillögunni stendur, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið frumvarpsins er að auka möguleika starfandi sparisjóða til að sækja sér eigið fé á markaði með því að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Í ljósi varhugaverðrar reynslu af hlutafjárvæðingu sparisjóða er lagt til að áfram verði leitað leiða til að efla sparisjóðina sem sjálfseignarstofnanir. Skattafslátturinn sem hér er lagður til á sér fyrirmynd í upphaflegum lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sbr. lög nr. 152/2009, en vegna afstöðu ESA ákvað löggjafinn að nema hann brott úr þeim lögum með lögum nr. 165/2010. Flutningsmaður telur með hliðsjón af þeim ólíku sjónarmiðum sem eiga við í rekstri sparisjóða sem sjálfseignarstofnana og hlutafélaga að ríkisstyrkjareglur standi ekki í vegi fyrir því að skattafslátturinn verði látinn eiga við í tilviki hinna fyrrnefndu. Í áliti meiri hlutans er gerð grein fyrir hinu sérstaka eðli sparisjóða sem sjálfseignarstofnana.“

Þegar maður les greinargerð frá meiri hluta nefndarinnar kemur fram mjög skýr þverpólitískur vilji um að ívilna þessu rekstrarformi sem sjálfseignarstofnanir sparisjóða eru. Ég ætla að rifja það upp að fyrir síðustu aldamót gafst fólki kostur á að fjárfesta í hlutafélögum og fá skattafslátt þar á móti. Það var svo sem lítil athugasemd gerð við það en þá var sérstaklega verið að hygla hlutafélagaforminu. Þetta gilti ekki um þá sem fjárfestu í stofnfjárbréfum á þeim tíma. Menn hafa verið að hygla hlutafélagaforminu og nú er sem sagt verið að opna á það að hlutafélagavæða sparisjóðina í heild sinni á meðan við framsóknarmenn teljum að við eigum að ívilna því fyrirkomulagi sem sjálfseignarfyrirkomulagið er. Við sjáum hvernig hlutafélagavæðingin og græðgisvæðingin hefur farið með marga sparisjóði. Við hljótum að vilja hverfa frá slíkri hugmyndafræði og til þeirrar hugmyndafræði sem upphaflega var gerð með sparisjóðum sem áttu fyrst og fremst að sinna inn- og útlánum. Það verður því mjög áhugavert að fylgjast með því hvernig þingmenn munu greiða atkvæði varðandi þessar breytingartillögur. Ég tel að verði þetta samþykkt gæti það valdið straumhvörfum í endurfjármögnun sparisjóða í landinu. Ég held líka að áhugi sé fyrir því hjá fólki að eignast stofnfjárbréf, segjum til dæmis í Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Þetta mun að sjálfsögðu að einhverju leyti auka sparnað í landinu. Að sama skapi er hugsjónin sú einn maður, eitt atkvæði og ég mundi gjarnan vilja eiga stofnfjárbréf í mínum sparisjóði sem ég gæti skipt við. Þannig gæti maður um leið styrkt tilverugrundvöll hans.

Þetta rekstrarform, þessar stofnanir, sparisjóðirnir, eru í eðli sínu gerólíkar stóru viðskiptabönkunum þremur. Þeir tala fyrir því að auka fjölbreytni í fjármálakerfinu, auka samkeppni og auka vöruúrvalið á fjármálamarkaðnum. Sparisjóðirnir eru í raun og veru að bjóða fram öðruvísi þjónustu en stóru viðskiptabankarnir þrír. Þeir hafa það að markmiði að verja töluverðum fjármunum af hagnaði sínum til samfélagslegra verkefna á sviði lista og íþróttastarfsemi og annarra félagslegra málefna. Ég tel því mikilvægt að þessi tillaga verði samþykkt og verður áhugavert að fylgjast með umræðu um þetta mikilvæga mál.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri. Ég hef kynnt þær tvær breytingartillögur sem hér eru. Ég mun treysta mér til þess á endanum, í ljósi þess þrýstings sem er af hálfu sveitarfélaga og aðila innan sparisjóðafjölskyldunnar að málið verði klárað, að styðja það sem lög héðan frá Alþingi að því sögðu að breytingartillögurnar tvær sem ég hef lagt fram verði samþykktar, þ.e. í fyrsta lagi um að auðvelda sparisjóðunum að fjármagna sig og í öðru lagi að setja sérstakan starfshóp á fót sem á að skoða hvaða leiðir séu færar til að styrkja félagaform sparisjóða. Ég treysti mér þá til að styðja málið.

En ef menn ætla ekki að leita leiða til að styrkja sparisjóðina í landinu og að auka jafnvel möguleika almennings til að koma að rekstri sparisjóðanna með því að kaupa fyrir hóflega upphæð stofnfjárbréf í viðkomandi sparisjóði, þá tel ég að menn séu búnir að gefast upp gagnvart því verkefni að standa vörð um sparisjóðina í landinu.

Við þekkjum það að sparisjóðirnir hér á landi eru ekkert einsdæmi í veröldinni. Sparisjóðafjölskyldan í Þýskalandi er gríðarlega sterk og mjög öflug heild. Ég tel því að það sé ekki of seint að reisa sparisjóðakerfið við. Við þurfum einfaldlega að koma fram með tillögur sem auðvelda endurfjármögnun sparisjóðanna. Ég er viss um að fái fólk tækifæri til að kaupa stofnfjárbréf fyrir hóflega upphæð í sparisjóðum landsins munu viðskipti sparisjóðanna aukast enn frekar sem mun efla og styrkja tilverugrundvöll þeirra. En við skulum fyrst og fremst standa vörð um sparisjóðina og þess vegna bind ég vonir við að hv. þingmenn muni styðja þessar tvær breytingartillögur sem ég hef lagt fram fyrir hönd Framsóknarflokksins.