140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Magnús M. Norðdahl) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti í þessu máli en þar er aðallega verið að leggja til að 8. gr. frumvarpsins verði felld út. Ástæða þess er sú að tekist hefur um það sátt hvernig skuli haga greiðslu málskostnaðar í þeim málum sem höfðuð verða á hendur einstökum skuldurum til að fá fram stefnumarkandi og vonandi endanlega dóma í hinum svokölluðu deilumálum um gengistrygginguna. Það er meginatriðið en síðan er þess einnig getið í framhaldsnefndarálitinu að upp komu sjónarmið á milli umræðna um það hvort rétt væri, og þá hvað það mundi hafa í för með sér, að breyta ákvæðum einkamálalaga um gjafsókn til þess horfs sem þau lög voru í frá því snemma á níunda áratugnum og fram til ársins 2005.

Þær meginbreytingar sem gerðar voru á árinu 2005 fólu í sér að út úr lagaheimildunum féllu heimildir ráðherra, að fenginni umsókn gjafsóknarnefndar, til að fallast á gjafsókn í málum þar sem úrlausn hefði verulega almenna þýðingu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða einkahagi umsækjenda. Um þetta var á sínum tíma á árinu 2005 talsvert mikill ágreiningur, hvort ætti að gera. Þá voru þau rök færð fram fyrir þessari breytingu að gjafsóknarmálum hefði fjölgað mjög hratt frá árinu 1998 og fram til ársins 2003 en þá hafði þeim á fimm ára tímabili fjölgað um hartnær 200. Í því nefndaráliti sem kom fram frá meiri hluta þeirrar nefndar sem um málið fjallaði þá kom fram að ætlunin væri ekki sú að fækka þeim málum sem gjafsókn væri veitt í heldur þvert á móti að koma í veg fyrir frekari fjölgun þeirra. Nú hefur verið upplýst að gjafsóknarmál voru á árinu 2011 í svipaðri stöðu og þau voru í á árinu 1998. Afleiðing frumvarpsins hefur því klárlega orðið sú að dregið hefur úr þeim málum sem gjafsókn er veitt í.

Í þessu máli, og taka ber tillit til þess, er ekki gert ráð fyrir því að í þessu felist stórkostlegur útgjaldaauki né heldur að gengið verði á réttindi þeirra tekjulægstu hópa sem í dag fá gjafsókn og hafa fengið undanfarin ár. Til þess að stýra þeim fjárveitingum sem Alþingi veitir innanríkisráðuneytinu á hverjum tíma til að standa undir þessum kostnaði er ákvæði í lögunum sem fjallar um það hvernig skuli meta fjárhagslega stöðu umsækjenda þegar að þessum lið kemur og opnar heimildir í þessu efni, bæði í 1. mgr. 127. gr. og í reglugerðarákvæðinu sem slíku. Þess vegna íhugaði nefndin hvort ótímabært væri á þessu stigi að taka þetta ákvæði úr frumvarpinu út. Sú varð ekki niðurstaðan heldur er það álit meiri hluta nefndarinnar að fram skuli fara með málið eins og það var búið af hálfu nefndarinnar á sínum tíma að því undanskildu að 8. gr. falli brott.

Þetta kann að hljóma eins og ekki mjög stórt mál en í því er fólgið mjög verðmætt grundvallaratriði í réttarfari sem felur í sér að ekki eigi einungis að líta til fastákveðinna tekjumarka, einhvers hámarks í tekjum, þegar gjafsókn er veitt heldur sé heimilt að líta til fleiri þátta. Þá sé meðal annars heimilt að líta til greiðslugetu viðkomandi einstaklings, líka að litið sé til þess málefnis sem tekist er á um. En eins og lögin hljóma í dag þá getur það verið val hjá einstaklingi sem hefur tekjur, kannski vegna þess að hann er duglegur að vinna eða koma húsnæði yfir sig og sína fjölskyldu, og hann verður fyrir mannréttindabroti. Hann stendur þá frammi fyrir þeim valkosti að ef málsóknin ber hann ofurliði þá fái hann gjafsókn en ef hún gerir það ekki þá fái hann ekki gjafsókn. Hann þarf sem sagt í slíkum tilvikum, þegar í hlut eiga mál sem geta varðað mjög mikilsverð mannréttindi hans, að standa frammi fyrir valkosti um að setja sig og fjölskyldu sína á hausinn eða fá tækifæri til að sækja rétt sinn. Þetta eru prinsippin í málinu sem verið er að leggja til og það er mikilvægt að þeim sé haldið til haga. Meiri hluti nefndarinnar er því á þeirri skoðun að þetta eigi að fara fram eins og það var lagt fram.

Raunar var rætt um það hvort æskilegt væri að setja ákveðið gildistökuákvæði í þetta, sem gæti verið kannski einn mánuður eða svo, þannig að ráðuneytið hefði tækifæri til að umskrifa þá reglugerð sem býr að baki. Ekki hefur fengist full niðurstaða í það en ég geri ráð fyrir því að innanríkisráðuneytið verði mjög snöggt að skrifa reglugerð í þessu efni, jafnhæft og gott starfsfólk sem þar er að finna.

Ég vil einnig nota tækifærið, frú forseti, til að mæla fyrir breytingartillögu sem flutt er af mér, Margréti Tryggvadóttur og Eygló Harðardóttur. Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er gerð grein fyrir því að við vinnslu málsins hafi komið fram tillögur sem feli í sér að hægt verði að taka upp nauðungarsölur sem hafi farið fram og jafnframt að hægt verði að taka upp gjaldþrotaúrskurði sem hafa verið kveðnir upp lengra aftur í tímann en lögin gera ráð fyrir. Þetta fær ýmsa gagnrýni í áliti meiri hlutans, meðal annars að þetta sé óljóst, ekki sé ljóst hverjar afleiðingarnar verða o.s.frv. Við sem flytjum þessa tillögu erum ekki sammála þeim sjónarmiðum. Í desember 2010 var mælt fyrir um það í lögum að skuldarar hefðu heimild til að gera kröfu um að nauðungaruppboð, sem fram hefðu farið á grundvelli ólögmætra gengislána, yrðu endurupptekin, líka aðfarir og gjaldþrotaúrskurðir. Þetta var í ákvæðunum sem Alþingi samþykkti, að mér er sagt, með öllum greiddum atkvæðum, að mér skilst 63:0 eins og menn orðuðu það, að þetta væri heimilt. Síðan koma í ljós á árinu 2011 að þessi lagaákvæði voru ekki í þeim vandaða búningi sem þurft hefði á þeim tíma til að þau gætu fengið framhald. Meðal annars átti það við um upptöku gjaldþrotaúrskurðanna þar sem kemur fram í þeim dómum og úrskurðum sem fallið hafa eftir þessa tímasetningu að ekki væri heimild fyrir því að einstaklingur gæti fengið gjaldþrotameðferð endurupptekna jafnvel þó að hann sýndi fram á að greiðsluerfiðleika sína mætti rekja til ólögmætra gengistryggðra lána ef gjaldþrotaskiptabeiðnin byggði á annarri kröfu en þeirri sem var gengistryggð. Úr þessu er bætt í 2. tölulið þessarar breytingartillögu:

„Við 8. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Án tillits til þeirra fresta sem greindir eru í 1. mgr. 137. gr. getur þrotamaður, þrátt fyrir að útivist hafi verið af hans hálfu, krafist endurupptöku gjaldþrotaúrskurðar í máli þar sem skiptum á búi hans er ekki lokið, enda leiði hann líkur að því að greiðsluerfiðleika hans sé að rekja til gengistryggðra lána. Ákvæði þetta gildir til loka árs 2013. Ákvæði þetta á ekki við um lögaðila.“

Hér er verið að bæta úr því sem dómstólarnir beinlínis gagnrýndu í sambandi við þessa löggjöf, þ.e. ef mér sem einstaklingi tekst að sýna fram á að greiðsluerfiðleikar mínir séu vegna þess að ég tók ólögmætt gengistryggt lán sem ég vissi ekki betur en væri löglegt — og ég er einstaklingur og búið er að óska eftir því að ég verði gerður gjaldþrota, búið að kveða úrskurðinn upp en ekki búið að ljúka skiptunum — þá eigi ég kröfu á því að fara inn og segja: Ég vil fá þennan gjaldþrotaúrskurð endurupptekinn. Nú er búið að dæma og það er verið að dæma öll þessi lán ólögmæt. Þetta er réttur einstaklingsins til að geta tekið aftur við búi sínu. Má vera að þetta verði flókið í praxís fyrir sýslumenn og skiptastjóra og önnur yfirvöld sem við það glíma en þá verður bara svo að vera. Það er mjög mikilsvert fyrir einstakling að eiga þann rétt að geta fengið þetta endurupptekið. Þarna er bundið það skilyrði að skiptum sé ekki lokið, þ.e. að skiptameðferð sé enn í gangi. Þá er hægt að fara inn í málið, rekja það upp og taka þennan úrskurð ef ástæða er til og sýnt er fram á að ekki var ástæða til að gera viðkomandi gjaldþrota og hann fær bú sitt afhent að nýju.

Í 1. töluliðnum er komið inn á örlítið stærra mál. Í þeim tilvikum að fasteign hafi verið seld á nauðungaruppboði vegna gengistryggðs láns sem nú er búið að dæma ólögmætt — ef nauðungaruppboðs væri óskað í dag mundi það aldrei ná fram að ganga — er ákvæði um að slíkt nauðungaruppboð megi taka upp jafnvel þó að uppboðsafsal hafi verið gefið út eins og var gangur löggjafans á árinu 2010. Þetta er þó takmarkað þannig að þetta á einungis við um þær fasteignir, íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar sem viðkomandi fjármálastofnun situr enn á eigninni sem eigandi. Því hefur verið haldið fram að þetta geti farið fram gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrár. Ég er því ekki sammála. Ef ég nota réttarkerfið til að knýja fram uppboð og uppboðsafsal til mín á grundvelli skuldbindingar sem seinna er dæmd ólögmæt þá er réttlætið fólgið í því að ég fái þessa eign til baka ef uppboðskaupandinn heldur enn á eigninni í sínum höndum. Ég skil það ef eigninni hefur verið afsalað til þriðja aðila, þá er flækjustigið orðið meira og örugglega orðið of seint að taka slíkt mál upp. En ef staðan er sú að eignin hefur verið af mér tekin á nauðungaruppboði — og í mörgum tilvikum er það þannig að ég leigi íbúðina enn þá hjá þessu sama fjármálafyrirtæki og átti þetta ólögmæta lán — þá eigi ég rétt á því að sú nauðungarsala verði tekin upp.

Því hefur líka verið haldið fram í þessu sambandi að þetta væri mjög flókið í framkvæmd. Ég er sammála því að þetta getur verið flókið í framkvæmd en þarna eru undir svo mikilsverðir hagsmunir þeirra einstaklinga sem í hlut eiga að það upphefur það vandamál. Þetta verður vandamál dómstóla, sýslumanna og annarra að taka þetta fyrir. Nú þegar eru í lögum ákvæði um endurupptöku nauðungaruppboða. Gert er ráð fyrir því að svona kerfi sé til staðar. Núna erum við að gera það breiðara og lengja frestina aftur í tímann. Vandamálið til úrlausnar er ekkert annað en það hefur alltaf verið. Lagt er til að hægt verði að taka þessi nauðungaruppboð upp að nýju.

Nauðungarsölur eða sölur á veðsettum eignum eiga sér ekki allar stað í gegnum nauðungaruppboð. Í þeim tilvikum, og um það er fjallað í 3. tölulið, er heimilt að selja fasteignir á grundvelli veðhafafundar ef viðkomandi einstaklingur er orðinn gjaldþrota. Í þeim tilvikum þarf sama regla að gilda og á við um nauðungaruppboðin og 3. töluliður gerir ekki annað en spegla ákvæði 1. töluliðar en á bara við um málið þegar það er í gjaldþrotameðferð.

Þetta eru mikilsverðar lagabreytingar og þó að svo seint sé í rassinn gripið þegar allur þessi tími er liðinn frá hruninu þá er það þannig — jafnvel þó að þarna eigi ekki undir nema handfylli af fjölskyldum sem vilja nota sér þetta ákvæði til að fá fasteign sem þær hafa kannski byggt fyrir eigið fé og erfiðað fyrir árum saman og eru leigutakar í enn þann dag í dag hjá fjármálafyrirtækjunum — að þetta fólk fær þá réttarstöðu til að geta náð þessum eignum til sín aftur. Af þeim ástæðum er þetta lagafrumvarp lagt fram. Efasemdir réttarfarsnefndar eru allra góðra gjalda verðar en Alþingi Íslendinga tók ákvörðun um að þetta skyldi vera réttarstaða skuldara á árinu 2010. Það voru gallar í þeirri löggjöf. Þessu frumvarpi er ætlað að vinna á þeim göllum og gera þennan möguleika að fullum raunveruleika fyrir þá sem það kjósa.