140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ekki það að ég vilji lengja hér umræður en ég tel að hv. þingmaður verðskuldi svör. Í fyrsta lagi held ég að ekki sé um það deilt að greitt sé tiltekið almennt veiðigjald, enda hefur það löngu komist á, hóflegt gjald sem er eins konar gjald fyrir aðganginn sjálfan að auðlindinni.

Í öðru lagi er á ferðinni sú hugmyndafræði að sérstakt veiðigjald bætist þar við sem sé næmt fyrir afkomu greinarinnar og sem fangi hluta af umframarðinum sem myndast við hagstæð skilyrði til sjávarins og sprettur af því að greinin fær aðgang að verðmætri sameiginlegri auðlind sem stjórnvöld passa upp á og stýra nýtingu á. Auðvitað má segja að fyrir því sé þá hugmyndafræðilegur grunnur að vissu leyti að sameignin myndi andlag fyrir því að þjóðin fái til sín hluta af þessari rentu.

Í þriðja lagi myndast mjög mikill umframhagnaður í útflutningsgrein eins og sjávarútveginum við tilteknar aðstæður eins og til dæmis nú þegar gengið er lágt, aflabrögð eru góð og afurðaverð hátt. Eigið fé sjávarútvegsins hefur aukist um um það bil 200 milljarða á fjórum árum, framlegðin er af stærðargráðunni 75–80 milljarðar á ári og góðærið heldur áfram samanber fréttir Hagstofunnar í morgun um að aflaverðmæti á fyrstu þremur mánuðum þessa árs sé 10 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra.

Í fjórða lagi geta það kallast rök að þjóðin hefur tekið á sig byrðar meðal annars vegna lágs raungengis og býr við skert lífskjör, meiri verðbólgu og hærri lán af þeim sökum.

Í fimmta lagi hefur ríkissjóður axlað gríðarlegar byrðar vegna hrunsins sem hér varð og ég geri ráð fyrir að ekki þurfi að upplýsa hv. þm. Illuga Gunnarsson um, hann hafi eitthvað orðið var við það.

Í sjötta lagi má færa hagstjórnarleg rök fyrir því að það geti verið skynsamlegt að stilla af, upp að vissu marki, jafnvægi milli greina sem búa við mjög misjöfn skilyrði innan hagkerfisins meðan aðstæður eru sérstakar eins og þær eru nú. Og af áðurnefndum ástæðum býr sjávarútvegurinn nú við alveg sérstök (Forseti hringir.) vildarkjör. Það kemur sér vel þar af leiðandi fyrir þjóðina og fyrir ríkissjóð að hann geti nú lagt meira af mörkum.