141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir innlegg hans í umræðuna sem er málefnalegt og það hefur umræðan verið í morgun. Varðandi það að færa virðisaukann á ferðaþjónustunni yfir í almenna þrepið, tel ég að eðlilegt hefði verið að eiga orðastað við ferðaþjónustuna áður en ráðist var í þá aðgerð. Það á að vera almenna reglan í skattheimtu. Það hefur verið gert og að mínu viti tekið tillit til athugasemda greinarinnar svo sem eins og að hefja ekki þá vegferð fyrr en um mitt næsta ár auk þess sem viðeigandi hópur mun fjalla frekar um þetta mál.

Almenna reglan hvað varðar atvinnulífið finnst mér eiga að vera sú að menn sitji við sama borð. Það á að vera pólitísk yfirlýsing fólgin í því að hafa ákveðna hluti í neðra virðisaukaskattsþrepi sem er þess eðlis að hlífa ákveðnum hópum í samfélaginu svo sem eins og barnafólki og þeim sem stjórnmálamenn og stjórnvöld á hverjum tíma vilja hlúa að. En almennt séð eiga menn að njóta jafnræðis í skattlagningu.

Tímabundnir skattar eiga að vera í sífelldri endurskoðunar og helst eins fáir og hugsast getur. Það þarf að grípa til þeirra öðru hverju en það á að vera Alþingis sem fer með löggjafarvaldið að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald í þessum efnum, af því að þeir vilja festast í sessi. Ég kem ef til vill að árinu 2013 í seinna andsvari mínu.