141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:54]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ósköp eðlilegt að skuldir ríkissjóðs hafi aukist eftir þau efnahagslegu ósköp sem riðu yfir haustið 2008 þegar 215 milljarðar helltust yfir ríkissjóð með tilheyrandi braki og brestum í áætlanagerð. Eins og ég gat um í ræðu minni urðum við að grípa til þessarar blönduðu leiðar sem hefur skilað okkur tugum milljarða, tekjuöflunarleiðin um 137 milljörðum og niðurskurðurinn sömuleiðis á annað hundrað milljarða. Ég tel að þetta sé ein happadrýgsta leiðin sem farin hefur verið í aðstæðum sem þessum, sem eru nánast einsdæmi, að hafa farið nokkuð hratt en örugglega í þann niðurskurð sem þurfti að gera eftir vel að merkja ofþensluár í opinberum rekstri árin þar á undan. Ríkisstarfsmönnum á tíu árum fyrir hrun fjölgaði um 37%, þar af 4/5 hlutum á höfuðborgarsvæðinu þó aðeins 2/3 landsmanna búi þar, það varð aukning á fjármunum ríkisins til opinberrar þjónustu og um gríðarlega yfirbyggingu að ræða. En ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af árinu 2013 nema ef vera kynni skuldastöðunni. Ég tel að hagvísar bendi til þess að vöxtur í þjóðarframleiðslu verði jafnvel meiri heldur en nú er og (Forseti hringir.) ber von í brjósti um að nýjar tölur Hagstofunnar sem birtar verða í nóvember geti staðfest (Forseti hringir.) það að þessi áætlunargerð sem fjárlagafrumvarpið ber með sér muni vel standast.