141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

orð ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma o.fl.

[14:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég gera athugasemd við þessar leiðbeiningar virðulegs forseta. Virðulegur forseti hlýtur að vita að þingmenn eru farnir að þekkja hvaða reglur gilda um fundarstjórn forseta eftir miklar umræður þar um.

Ég vil gera athugasemd við það að virðulegur forseti skuli láta það óátalið að hæstv. atvinnuvegaráðherra tali um samkomulag eins og hann gerði hér, samkomulag sem var unnið, ekki hvað síst undir handleiðslu virðulegs forseta, í tilraun til að ná einhverri sátt í þinginu, til að ná mönnum saman í samstarf um skynsamlegar lausnir. Þetta samkomulag var unnið og það hefði ekki getað verið skýrara að menn voru að skrifa upp á það að búið væri að ná sátt um ákveðna hluti þó að í framhaldinu væri sem hluti af samkomulaginu að til stæði að kanna hvort hægt væri að ná niðurstöðu í fleiri hluti. (Gripið fram í.) Svo efins voru menn þrátt fyrir allt um að ríkisstjórnin mundi standa við gert samkomulag að það var farið fram á að þetta yrði undirritað af hæstv. forsætisráðherra og hæstv. atvinnuvegaráðherra. (Forseti hringir.) Það var gert en það virðist ekki einu sinni eiga að duga til. (Gripið fram í: Hneyksli.)