141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

orð ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma o.fl.

[14:12]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að gera athugasemd við hæstv. forseta. Þann 3. september sendi ég forseta þingsins og forsætisnefnd erindi um skipan þessa svokallaða trúnaðarmannahóps og þess fjögurra manna hóps sem sendi frá sér greinargerð þar sem ég geri athugasemd við störf hópsins. Það væri ekki verið að karpa um þessa greinargerð í dag ef forsætisnefnd hefði tekið afstöðu til þessa erindis míns. Það eru að verða þrjár vikur síðan ég sendi það. Menn geta haft uppi mismunandi skoðanir á störfum þessa hóps en sá trúnaðarmannahópur sem getið er um í samkomulagi formanna hefur ekki hist síðan í júní, heldur hafa aðeins fjórir þingmenn hist og skrifað þessa greinargerð sjálfir. Ég átel þau vinnubrögð í erindi mínu til forseta þingsins og skil ekki hvers vegna þetta erindi var ekki tekið fyrir á fundi forsætisnefndar í morgun. Hvað á að bíða lengi eftir að þetta verði afgreitt þaðan?