141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[14:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að vera hreinskilinn með að ég átta mig ekkert á um hvaða athugasemd er verið að ræða hér. Að við séum að setja á stofn stofnun sem er búin að vera lengi starfandi á Ísafirði og er verið að formgera með þeim hætti að það er verið að festa hana í sessi? Hún er búin að vera starfandi mjög lengi og langflestir innflytjendur voru á því svæði, þess vegna var setrið sett þar niður löngu fyrir tíma þessarar ríkisstjórnar.

Það er ánægjulegt að heyra að það sé upplifun viðkomandi hv. þingmanns að það sé verið að fjölga opinberum starfsmönnum. Við höfum frekar legið undir ámæli fyrir að fækka þeim, enda liggur fyrir að það hefur fækkað um 1–2 þús. starfsmenn. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að fagna en það hefur verið afleiðing af því að við þurftum að bregðast við því hruni sem hér varð.

Varðandi sjóði ráðherra er einmitt verið að formgera þá. Það hafa verið sjóðir um innflytjendamál og svo er í ýmsum öðrum málaflokkum. Það er alrangt að ráðherra úthluti úr þeim. Það eru stjórnir sem fjalla um úthlutanir, hafa gert það mjög faglega og unnið þá vinnu mjög vel. Þarna er verið að beina ákveðnu fjármagni til rannsóknaverkefna til að vinna að og fylgja eftir ákveðnum verkefnum. Eitt af því sem skiptir mestu máli í þessari umræðu og er einmitt markmiðið með þessari stofnun og því formi sem hér er sett á laggirnar er að taka ekki ríkisábyrgð á einhverjum ákveðnum íbúum sveitarfélaga. Sveitarfélögin eiga að sjá um sína íbúa, hvort sem þeir koma frá Asíulöndum, Ameríku eða Evrópulöndum, og þjónusta þá til jafns. Þeirri reglu viljum við halda, það á ekki að stimpla fólk eða flokka það eftir því hvaðan það kemur.

Varðandi stefnu krata get ég svo sem fjallað um hana einhvern tímann síðar en það er alveg rétt að í henni felst að jafna kjör og færa til sem er okkar meginmarkmið.