141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég þekki þessa sögu sæmilega. Það er í fyrsta lagi mikilvægt að átta sig á því að þau verkefni sem Fjölmenningarsetrið tókst á hendur voru ekki verkefni sem hafði verið unnið að. Það var einfaldlega verið að setja á laggirnar það sem við kölluðum á þeim tíma nýbúamiðstöð sem seinna varð Fjölmenningarsetur vegna þess að þörfin kallaði. Þeim verkefnum hafði ekki verið sinnt á vegum stjórnsýslunnar og við sögðum, með þeim rökum sem ég flutti áðan og ég get ekki endurtekið á þessum stutta tíma, að það væri mjög skynsamlegt að setja á laggirnar þessa starfsemi á Ísafirði sem gæti síðan á miðlægan hátt sinnt verkefnum úti um allt land. Það útilokar í sjálfu sér ekki að einhvers konar annað starf sé unnið á þessu sviði víða um landið. Ég veit að á Akureyri voru menn með slíka starfsemi. Hér í Reykjavík var Alþjóðahúsið, það var sannarlega til á þeim tíma en það var hins vegar verkefni sveitarfélaga og ég hygg félagasamtaka á höfuðborgarsvæðinu. Sú stofnun sem við settum á laggirnar á Ísafirði var ekki stofnun af því tagi.

Þess vegna fannst mér það alltaf frekar leiðinlegt að þurfa að standa í því að verja hagsmuni Fjölmenningarsetursins og að menn voru að reyna að stilla stofnununum upp hvorri gegn annarri, Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði og Alþjóðahúsinu í Reykjavík, sem voru ekki eins. Ég er viss um að Alþjóðahúsið vann mjög gott starf í þágu þeirra sem það átti að sinna en Fjölmenningarsetrið gerði það líka. Þessar stofnanir unnu hvor á sinn hátt að þessum verkefnum, hvor á sínum staðnum. Það hefði ekki verið skynsamlegt að setja á laggirnar aðra ríkisstofnun sem héti Alþjóðahús í Reykjavík sem ynni með sama hætti og Fjölmenningarsetur á Ísafirði. Það er síðan verkefni sveitarfélaganna og eftir atvikum frjálsra félagasamtaka hvort þau vilja efla starfsemina í þessum málaflokki með alþjóðahúsi eða á annan hátt. (Forseti hringir.) Ég hef ekki þekkingu til að svara því hvort það sé skynsamlegt að gera það undir hatti Alþjóðahúss eða með öðrum hætti á höfuðborgarsvæðinu.