141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Tíðindi af skýrslu Seðlabankans um kosti í gjaldeyrismálum eru þau að kostirnir séu í raun tveir, annars vegar evra með aðild að Evrópusambandinu, hins vegar króna í höftum. Það er kannski of mikið að kalla krónuna haftakrónu til allrar framtíðar en það er alveg ljóst að það verður aldrei aftur þannig að hún sé á fljótandi gengi og að um leið séu frjálsir fjármagnsflutningar. Það er áhætta við evruleiðina og er hún rakin í skýrslunni, en þar eru líka kostir. Kostirnir eru þeir að stöðugleiki eykst með þeim hætti sem við þekkjum ekki í Íslandssögu síðari áratuga, vextir lækka fyrir fyrirtæki og fólk, verðlag lækkar, verðtrygging verður minna mál en við þekkjum til, verðbólga verður ekki vandamál í íslenskri merkingu þess orðs og þjóðartekjur hækka.

Sjálfsagt er að velta fyrir sér þessum tveimur kostum um hríð. Við höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu og þeirri aðild mundi fylgja annar þessara kosta, evran. Sjálfsagt er að velta einnig hinum kostinum fyrir sér, haftakrónunni og síðan þeirri krónu sem þyrfti að hafa á hækjum næstu áratugi. Þess vegna er rétt að spyrja þá sem barist hafa fyrir því að hætta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið af hverju þeir vilja útiloka annan af þessum tveimur kostum að órannsökuðu máli þegar ekki liggja fyrir þær staðreyndir og sú umræða hefur ekki farið fram sem gæti að lokum leitt okkur til þess að velja annan kostinn. Mér þykir strax evran fýsilegri. Um það kunna að vera deildar meiningar en það er fáránlegt að útiloka annan kostinn af þessum tveimur strax og ekki til gagns fyrir land og þjóð.