141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Fréttir dagblaðanna eru umræðuefni í störfum þingsins. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til að endurskoða lög um stimpilgjöld, starfshópur hafi verið settur á laggirnar og hann eigi að skila niðurstöðum um miðjan október. Ég fagna þeirri skuldbindingu ríkisstjórnarinnar vegna þess að ég er ein þeirra sem lagt hafa fram breytingartillögu á lögum um stimpilgjöld. Þau frumvörp sem lögð hafa verið fram, meðal annars á síðasta þingi, voru lítið sem ekkert rædd og voru ekki afgreidd úr efnahags- og viðskiptanefnd. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að svo virðist sem ríkisstjórninni sjálfri, sem skuldbindur sig til þessa og bíður eftir frumvarpsdrögum um miðjan október, sé ekki meiri alvara en svo að í fjárlagafrumvarpinu, sem var til 1. umr. í síðustu viku, er áætlað að stimpilgjöld skili 4,1 milljarði í ríkissjóð. (Gripið fram í.) Við sitjum uppi með fjárlagafrumvarpið sem búið er að ræða í 1. umr. um leið og ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að endurskoða lög um stimpilgjöld.

Virðulegur forseti. Hvaða tvískinnungur er á ferðinni í fjárlagafrumvarpinu sem og í öðrum málflutningi sem borinn er fram af hálfu meiri hlutans í þinginu? Ég spyr, ef hv. formaður fjárlaganefndar gæti komið hingað í andsvar eða ræðu varðandi þetta mál: Hvers vegna er gert ráð fyrir 4,1 milljarði og óbreyttum stimpilgjöldum í fjárlagafrumvarpinu á meðan ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að gera annað og á meðan beðið er eftir frumvarpi um miðjan október um breytingar á þessum lögum?