141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Evrópa hefur verið að taka breytingum á undanförnum áratugum og mun áfram taka breytingum inn í ókomin ár. Það eitt er víst. Við eigum ekki að vera hrædd við að taka upp samtöl og samvinnu við aðrar þjóðir. Við höfum hingað til grætt allverulega á því.

Ég kem hingað upp til þess að fagna sérriti Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þetta er ítarlegt plagg upp á rösklega 600 blaðsíður og tekur sinn tíma að komast í gegnum það allt en ég álít sem svo að þessi skýrsla eða sérfræðirit dýpki og þroski umræðuna og það er vel. Nú er komið í ljós að einhliða upptaka annarra gjaldmiðla er slegin út af borðinu. Það vekur sérstaka athygli að það felst í því jafnvel enn meira fullveldisafsal en að eiga samninga við aðrar þjóðir um að reyna að taka upp einhliða gjaldmiðilssamband við aðrar þjóðir. Það er þá út af borðinu og eftir standa tveir kostir; krónan með sínum kostum og göllum og evran með sínum kostum og göllum.

En það sem vekur athygli mína við lestur skýrslunnar er — ég tek fram að ég er ekki búinn að fara í gegnum hana alla en ágætan hluta hennar — að sú kenning að krónan sé sveiflujafnandi er nokkurn veginn slegin út af borðinu. Hún er sveifluhvetjandi og ef við horfum á það sem einn af kostum krónunnar að hún jafni sveiflur þá komast sérfræðingarnir að því að hún er miklu fremur sveifluhvetjandi en sveiflujafnandi. Þannig að einn af meginkostum krónunnar við þær aðstæður sem nú ríkja og hafa ríkt í íslensku samfélagi eru ekki kostir þegar rýnt er í skýrsluna. Við skulum hafa allt opið, skoða kosti og galla annars vegar evrunnar og kosti og galla krónunnar hins vegar og sjá hverju fram vindur í þroskaðri umræðu. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að slá annað tveggja út af borðinu, krónu eða evru nú þegar.