141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[16:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að þakka þeim fyrir sem hafa blandað sér í umræðuna, þetta hefur verið ágætisumræða.

Það vakna nokkrar spurningar eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra. Í fyrsta lagi kom fram í máli forsætisráðherra að umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir væru fram undan. Það væri ágætt að fá upptalningu á því hvaða virkjunarframkvæmdir það eru og hvernig þær fara saman við þau ummæli hv. þm. Þuríðar Backman að horfið hafi verið frá slíkum hugmyndum.

Þá langar mig að beina beinni spurningu til forsætisráðherra sem ég óska eftir að fá svör við: Hefur forsætisráðherra ekki áhyggjur af því sem birtist okkur í tölum Hagstofunnar, að störfum er ekki að fjölga? Það kemur fram svart á hvítu í tölum Hagstofunnar að störfum hefur ekki fjölgað þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi á kjörtímabilinu margoft lýst því yfir að stefna ríkisstjórnarinnar sé að fjölga störfum um 25–29 þúsund, hef ég heyrt. Það kom fram í ræðu hv. stjórnarþingmannsins Þuríðar Backman að gert væri ráð fyrir 4–15 þús. nýjum störfum til ársins 2015. Engu að síður sýna gögnin okkur að störfum er ekki að fjölga. Það hefur greinilega ekki náðst árangur með því plani sem hingað til hefur verið fylgt.

Þá langar mig að ítreka þá spurningu við hæstv. ráðherra hvort það megi búast við skattalækkunum til framtíðar. Eða má atvinnulífið búast við því að sömu stefnu skattahækkana verði fylgt áfram inn á næsta kjörtímabil, enda hafa ríkisstjórnarflokkarnir lýst því yfir að þeir óski eftir áframhaldandi umboði til að stjórna landinu? Er það stefna ríkisstjórnarinnar að lækka skatta á fyrirtæki til framtíðar eða er stefna ríkisstjórnarinnar að hækka skatta enn frekar og gera eins og nýja fjárlagafrumvarpið gefur upp, framkvæma þá stefnubreytingu að (Forseti hringir.) auka rekstur ríkisins enn frekar með því að hækka stöðugt skatta á atvinnulífið þrátt fyrir loforð um annað, samanber tryggingagjaldið?