141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:37]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Eins og aðrir þakka ég fyrir umræðuna og þessa miklu skýrslu Seðlabankans sem við fáum þó frekar stuttan tíma til að ræða. Ég held að við ættum öll að vera sammála um að við eigum að stefna í sömu átt. Við þurfum mynt sem hægt er að treysta og stóla á, hvað sem hún kallast. Við þurfum að losna við verðtrygginguna og umfram allt þurfum við að losna við þörfina fyrir verðtryggingu með stöðugleika og betri efnahagsstjórn.

Samkvæmt skýrslunni eru valkostirnir einkum tveir, evra með inngöngu í ESB og króna í höftum. Að mati Seðlabanka Íslands eru aðrir kostir verri. Tíunduð er dapurleg reynsla okkar af sjálfstæðri peningastefnu og sveigjanlegu gengi og gott að hafa þá hörmungarsögu á einum stað.

Það sem flækir málin er að við sjáum ekki framtíðina. Við vitum ekki nákvæmlega hver framtíð evrunnar verður og með hvaða hætti Maastricht-skilyrðunum verður framfylgt. Mér finnst trúlegt að þau verði hert. Því finnst mér mikilvægt að við höldum áfram öllum möguleikum opnum, þar með hugsanlegri aðild að ESB. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera sambúðina við krónuna bærilegri og til þess þurfum við að hafa þor til að slátra annarri krónunni sem við notum, þeirri verðtryggðu, því að það gengur ekki að við fáum launin okkar í einni mynt, óverðtryggðri krónu sem rýrnar og rýrnar, og þurfum að standa skil á skuldum okkar í þeirri verðtryggðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Utanrrh.: Þetta er nokkuð …)