141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að leggja áherslu á að þessi leið er bara ein af mörgum nauðsynlegum úrræðum sem grípa þarf til vegna skuldavanda heimilanna. Við heyrum núna af stórauknum yfirdrætti heimilanna til þess að fjármagna meðal annars afborganir af lánum. Það er alveg ljóst að slík lántaka er bara gálgafrestur og má velta því fyrir sér hversu lengi sá gálgafrestur muni duga, ég held að það verði ekki mjög lengi. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að úrlausn skuldavanda heimilanna sé eitt brýnasta málið á þessu þingi og fagna því að í dag verði fleiri mál til umræðu þar sem (Forseti hringir.) lagðar verða til leiðir til þess að fjármagna almenna leiðréttingu lána og eins frumvarp sem gerir það að verkum að fólk getur skilað inn (Forseti hringir.) veðsettri eign sinni þannig að skuldir falli niður, dugi andvirðið ekki fyrir þeim. (Forseti hringir.)