141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:19]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið og mun svo reyna að svara því sem hv. þingmaður bætti hér við.

Hv. þingmaður nefndi að ráðstöfunartekjur hefðu aukist mjög lítið með þessu, en í því sambandi er fyrst og fremst verið að hugsa um langtímaáhrif, að til lengri tíma litið verði íslensk heimili betur í stakk búin til að taka þátt í efnahagslífinu. Þetta er sem sagt ólíkt aðgerðum þar sem fólk fær einhverja peninga strax upp í hendurnar, þarna er verið að hugsa til langs tíma. En ef menn sjá fyrir sér ákveðna þróun til langs tíma hefur það líka strax áhrif.

Hv. þingmaður nefndi stöðu Íbúðalánasjóðs sem sæti þá uppi með miklar inngreiðslur. Nú er ljóst að Íbúðalánasjóður mun þurfa á fjármagni að halda til að borga af skuldabréfum sínum. Þess vegna teljum við þetta góða leið til að fjármagna sjóðinn til skamms tíma. Ég ítreka hins vegar það sem ég nefndi í ræðu minni að auðvitað er það lántaka líka, en vonandi hagkvæmari lántaka en ef ríkið færi að slá lán til að setja peninga inn í sjóðinn og borga af komandi skuldabréfum.

Jafnframt ítreka ég það sem ég nefndi í fyrra andsvari að hér er fyrst og fremst um verðtryggðu lánin að ræða eins og kemur fram í greinargerð, en ábending hv. þingmanns, um vanskil og þá sem eru þegar í ferli hjá umboðsmanni skuldara, er sannarlega réttmæt og eitthvað sem þarf að taka tillit til þegar frumvarp yrði samið.

Nú er tími minn aftur á þrotum, frú forseti, en ég verð að fá að nota tækifærið til að leggja til að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til efnahags- og skattanefndar, mér láðist að nefna það áðan.