141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu.

[15:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil beina einni fyrirspurn eða tveimur til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra varðandi fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu.

Ljóst er að eftir hrunið ætluðu menn að læra af reynslu annarra þjóða og var talað mikið um Færeyinga og ekki síður Finna. Engu að síður var það tilfinning mín og margra í landinu að finnska leiðin væri farin með stöðugum niðurskurði og aðhaldi en þó ekki eins miklu atvinnuleysi og sannarlega varð þar vegna tækifæranna sem eru á Íslandi og lágu meðal annars í ferðaþjónustu.

Þegar hrunið varð ákváðu Þjóðverjar að lækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu til að tryggja að menn hættu ekki að gista í Þýskalandi. Svíar eru jafnframt að lækka sinn skatt þessa mánuðina til að geta verið samkeppnisfærari. Danir einir sitja uppi með sömu prósentutölu þvert yfir, eins og nú er lagt til að verði gert á Íslandi, með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir ferðaþjónustuna í Danmörku.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða fyrirmyndir eru teknar fyrir hjá fjármálaráðuneytinu þegar þetta er lagt til? Vil ég vitna til bæði Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og skýrslu sem Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt fram sem eru samhljóma um að hér verði gríðarleg fækkun á ferðamönnum í kjölfarið og minnkun á tekjum og eyðslu þeirra hér.

Við framsóknarmenn vorum á ferð um helgina og hittum meðal annars fyrir sveitarstjórnarmenn í Skagafirði. Þar kom fram að hætt var við það verkefni sem var langt komið að fara í uppbyggingu í vetur á 60 herbergja hóteli vegna þess að menn treysta ekki forsendunum. Sambærilegt dæmi er úr Vík í Mýrdal. Sambærilegt dæmi er í Reykhólasveit og miklu fleiri stöðum á landinu þar sem menn hafa orðið að snarhætta við vegna þess að ríkisvaldið ákveður í einni sviphendingu að fara leið sem nánast engin önnur (Forseti hringir.) þjóð í Evrópu hefur valið sér til að byggja upp ferðaþjónustu á erfiðum tímum.