141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gjaldeyrisviðskipti.

[15:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svarar væntanlega á eftir þriðju spurningunni varðandi það hvort hann hafi áhyggjur af komandi beinu eignarhaldi á bönkunum og hvort við munum sjá einhverjar aðgerðir til að koma í veg fyrir hættu sem af því stafar. Það er augljóst að sá aðili mundi ekki uppfylla þau lög sem nú gilda um aðila sem mega eiga bankana. Vogunarsjóður yrði væntanlega ekki samþykktur sem eigandi íslensku bankanna ef hann ætlaði sér að kaupa þá núna.

Það veldur mér áhyggjum sem kemur fram í athugasemd frá Seðlabanka Íslands, með leyfi forseta:

„Það er heldur ekki nákvæmt sem fram kemur á forsíðu Morgunblaðsins að Seðlabankinn hafi ekki svarað fyrirspurn blaðsins um það hverjar væru verklagsreglur bankans þegar beiðni berst um undanþágu frá fjármagnshöftum.“ — Það er ekki nákvæmt?

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti máli að þetta sé nákvæmt og þetta sé skýrt, alveg sama hver spyr. Ég tala ekki um ef í hlut á fjölmiðill sem á að koma upplýsingum til landsmanna.