141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gistináttagjald.

113. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mun núna svara þeim spurningum sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lagði fram varðandi gistináttaskattinn.

Hún spurði í fyrsta lagi: Hversu miklum tekjum hefur gistináttagjald, sem samþykkt var árið 2011, skilað í ríkissjóð?

Lög um gistináttaskatt tóku gildi 1. janúar 2012 og taka til allra gistináttaeininga sem seldar eru eftir þann tíma. Uppgjörstímabil gistináttaskatts eru þau sömu og í virðisaukaskatti. Það sem af er árinu hafa því eingöngu þrjú uppgjörstímabil fallið í gjalddaga, það eru tímabilin janúar/febrúar, mars/apríl og maí/júní. Enn hefur gjaldatímabilið júlí/ágúst ekki verið gert upp. Á þessum fyrstu sex mánuðum ársins hefur gistináttaskattur skilað 56 millj. kr. í ríkissjóð, sem er í samræmi við áætlanir.

Áætlaðar tekjur af gistináttagjaldi á fjárlögum ársins 2012 eru 115 millj. kr., en því til samanburðar, af því að hv. þingmaður vitnaði hér til hækkunar á virðisaukaskatti á hótelum og gistiheimilum upp í almenna skattþrepið, er gert ráð fyrir að á ársgrundvelli skili það 3,5 milljörðum í ríkissjóð. Það er því mikill munur á þessum tölum.

Hvernig er gjaldið innheimt? spyr hv. þingmaður. Gjaldið er lagt á hverja selda gistináttaeiningu. Með gistináttaeiningu er átt við leigu á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring. Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að dvalið sé yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt að koma henni fyrir og að leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar.

Undir þá skilgreiningu falla hús, íbúðir og herbergi, þar með talin herbergi á hótelum og gistiheimilum, sem og tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.

Gistináttaskatturinn nemur 100 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu. Skatturinn er svo innheimtur í samræmi við fjölda seldra gistináttaeininga samkvæmt innsendum gistináttaskýrslum skattskyldra aðila.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður: Er lagður virðisaukaskattur á gjaldið? Svarið er já. Tilgreina skal gistináttaskatt á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar hann stofn til virðisaukaskatts.

Að lokum spyr hv. þingmaður: Hvernig hefur gjaldinu verið varið? Gistináttaskattur rennur í ríkissjóð, en áætluðum tekjum af honum samkvæmt fjárlögum er jafnframt ráðstafað á árinu 2012. Alls eru áætlaðar 115 millj. kr. í tekjur af gistináttaskatti. Af þessum 115 millj. kr. er 69 millj. kr. ráðstafað til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og 46 millj. kr. ráðstafað til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Hlut umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er svo ráðstafað til þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Frú forseti. Nú tel ég að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns.