141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

104. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka bæði þingmönnum og ráðherra sem tóku þátt í þessari umræðu, ráðherra fyrir skelegga ræðu um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem við erum algjörlega sammála um. Það er alltaf gott þegar við getum verið 100% sammála um hlutina.

Virðulegi forseti. Í framhaldi af samkomulagi hæstv. ráðherra og borgaryfirvalda 10. nóvember 2010 sagði hæstv. ráðherra eftirfarandi á Alþingi, með leyfi forseta:

„Það varð sameiginleg niðurstaða af þeim fundi að ráðist yrði hið allra fyrsta“ — ég endurtek, hið allra fyrsta — „í að bæta aðstöðuna fyrir innanlandsflugið.“

Í framhaldi af þessu er mér kunnugt um að Flugfélag Íslands sendi drög að nýju húsi, nýrri flugstöð, til borgarinnar í nóvember 2010. Það var beðið um frekari útfærslur. Þær voru sendar formlega inn í mars 2011. Í maí 2011 var þetta rætt hjá borgaryfirvöldum en síðan ekki söguna meir. Eitt og hálft ár. Það eru bráðum tvö ár, virðulegi forseti, síðan þetta samkomulag var gert milli hæstv. ráðherra og borgaryfirvalda, en ekkert hefur gerst.

Nú geri ég mér grein fyrir því sem hér hefur verið rætt um, að skipulagsmálin eru Reykjavíkurborgar. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til ráðherra: Hvað hefur innanríkisráðuneytið sem þarf að leiða þessa vinnu, í samvinnu við fjármálaráðuneytið auðvitað vegna eignarhalds á landinu, gert? Hvenær má vænta þess að hægt verði að byrja? Vegna þess að allar teikningar og útfærslur eru til.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Er Isavia sammála þessari útfærslu, að gera þetta á þennan hátt? Styðja þeir þetta?

Virðulegi forseti. Það er mjög brýnt að bæta þessa aðstöðu. Ef það er ekki akkúrat tíminn núna og hefur ekki verið síðustu fjögur ár frá hruni, til að standa að svona framkvæmdum, spyr ég: Hvenær er þá tíminn með tilliti til atvinnusköpunar og annars slíks? Svo er það þetta sjálfsagða atriði að byggja upp aðstöðu sem er okkur til sóma, vegna þess að hún er núna engan veginn til sóma. Ég veit að þingmenn sem (Forseti hringir.) hér eru og hafa tekið þátt í umræðum hafa verið þarna þegar til dæmis millilandaflug til Færeyja eða Grænlands er á sama tíma. Þetta er ófremdarástand (Forseti hringir.) sem má ekki standa lengur.