141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

flutningur málaflokks fatlaðs fólks.

146. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek hér til umfjöllunar mál er varðar flutning málaflokks fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga sem var á sínum tíma heillaskref að mati þess sem hér stendur og fjölda annarra. Hér er um mikilvirka, viðkvæma en brýna og nauðsynlega nærþjónustu að ræða og þess vegna var vel að þessari þjónustu var komið fyrir sem næst íbúunum þar sem heimamenn fara að mínu viti betur með fé og fólk þegar kemur að þessum málaflokki.

Í upphafi árs 2011 var þessum málaflokki komið yfir til sveitarfélaganna en fram kom hins vegar á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem nýverið var haldinn í Borgarfirði eystra, að fjármunir hefðu ekki að öllu leyti fylgt tilflutningi málaflokksins. Einn mánuður hefði þar orðið eftir af tekjum ríkisins í desember 2010 og þrátt fyrir ítrekaða málaleitan Sambands íslenskra sveitarfélaga og eftirgrennslan hvort þessir peningar mundu skila sér hefur staðið á svari frá fjármálaráðuneytinu.

Ég beini þeirri spurningu til hæstv. velferðarráðherra hvort hann hafi sett sig inn í þetta mál og hafi verið með eftirfylgni er varðar þessa fjármuni vegna þess að samkvæmt samningnum átti allt að skila sér sem nam tekjum til þessa málaflokks á heilu ári en ekki bara 11 mánuðum.

Það er að mínu viti brýnt að taka þetta til skoðunar því að sá sem hér stendur telur að þessum málaflokki, eins og áður segir, sé mun betur komið fyrir hjá sveitarfélögunum þar sem skjólstæðingana er að finna. Hér er um nærþjónustu að ræða og þess vegna er mjög brýnt að tilflutningur af þessu tagi, þegar kemur að svo viðkvæmum málaflokki, skili sér að fullu er til fjárheimildanna kemur.

Frú forseti. Þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. velferðarráðherra sem fylgir í gögnum Alþingis: Í hvaða ferli er ágreiningur milli sveitarstjórna og ríkisvalds um fjármagnstilfærslu í tengslum við flutning málaflokks fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga? Mun hæstv. ráðherra velferðarmála beita sér fyrir því að fjármunirnir skili sér á endanum?