141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum.

92. mál
[17:28]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum (greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi).

Með frumvarpi þessu, sem er á þskj. 92, er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt þau ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/44/EB sem breyta tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf. Á Íslandi eru starfrækt tvö greiðslukerfi sem falla undir núgildandi lög, þ.e. stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar. Þátttakendur í kerfunum eru fjármálafyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Meginmarkmið laganna er að verja greiðslur sem komnar eru í kerfin gegn því að hægt sé að beita riftunarreglum laga um gjaldþrotaskipti um þær greiðslur.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að verðbréfauppgjörskerfi verði látin falla undir lögin. Í núgildandi lögum er einungis fjallað um greiðslukerfi. Í frumvarpi þessu er lagt til að lögin taki til greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa. Þá er einnig lagt til að ráðherra verði heimilt að viðurkenna fleiri kerfi en einungis þau sem falla strangt tiltekið undir skilgreininguna á greiðslukerfi.

Í öðru lagi er lagt til að skilgreiningu á nokkrum hugtökum verði breytt og ný hugtök skilgreind. Meðal nýrra hugtaka sem lagt er til að skilgreind verði í lögunum eru hugtökin „kerfisstjóri“ og „rekstrarsamhæfð kerfi“. Kerfisstjóri er sú eining sem kemur fram sem þátttakandi fyrir hönd kerfanna. Með því að heimila „kerfisstjóra“ að vera þátttakandi geta kerfin nú tengst í ríkara mæli og er þá talað um „rekstrarsamhæfð kerfi“.

Í þriðja lagi er lagt til að settar verði reglur varðandi það hvenær fyrirmæli teljist vera komin inn í kerfið. Þetta getur verið sérstaklega mikilvægt þegar um rekstrarsamhæfð kerfi er að ræða þar sem fyrirmælin eru varin þegar þau teljast vera komin inn í kerfið. Fram að því er hægt að beita riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga.

Í fjórða lagi er lagt til að greiðslur verði verndaðar nótt og dag með því að skilgreina viðskiptadag sem 24 klukkustundir. Með þessu geta uppgjör farið fram á hvaða tíma sólarhrings sem er og greiðslur bíða ekki eftir að viðskiptadagurinn hefjist til þess að þær teljist vera komnar inn í kerfið. Þar af leiðandi njóta þær réttarverndarinnar sem lögin bjóða.

Í fimmta lagi er lagt til að heiti laganna verði breytt í samræmi við nýtt efni þeirra þannig að þau muni þá heita lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að aflokinni þessari umræðu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.