141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:59]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Setningin sem ég geri athugasemd við hljóðar á þá leið að gert sé ráð fyrir umframútgjöldum hjá stofnunum sem ekki er mætt með auknum fjárheimildum. Samkvæmt fjárreiðulögum er það ekki heimilt. Ef maður tekur þetta bókstaflega er verið að boða lögbrot að þessu leyti, sem ég er ekki að væna hæstv. ráðherra um.

Mér finnst þetta bera vitni um að þarna sé verið að safna saman á einn stað heimildum í orðum sem munu réttlæta umframkeyrslu á ýmsum fjárlagaliðum sem við vitum að stefna fram úr heimildum þrátt fyrir fjáraukalögin.

En ég bið um útskýringu á þessu atriði, hvort ráðherra muni ekki grípa fram fyrir hendur þeirra sem ætla að fara fram úr þeim heimildum sem úthlutað verður á fjáraukalögum og þar með fjárlögum ársins.