141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:27]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem við þurfum að taka fyrir í hv. fjárlaganefnd. Vandi Íbúðalánasjóðs er mikill. Við höfum verið upplýst um hann í hv. fjárlaganefnd og þar sér ekki fyrir endann á. Íbúðalánasjóður er í eðli sínu félagsleg aðgerð. Það er mjög umhugsunarvert að ríkið skuli halda úti sjóði nú um stundir sem getur ef til vill ekki keppt við viðskiptabankana í húsnæðislánum. Þá er hann ekki mjög félagslegur. Málefni Íbúðalánasjóðs hljóta því að koma til rækilegrar umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd og á Alþingi á komandi vikum.

Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar hvað varðar lánshæfismatið sem getur verið keðjuverkandi og haft alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Það er málefni sem við hljótum að taka til umfjöllunar. Það má spyrja sig og ég spurði mig að því við lestur þessa frumvarps til fjáraukalaga hvort einhvers konar aukafjárveiting til Íbúðalánasjóðs ætti heima í fjáraukalögum. Það finnst mér koma til greina, vegna þess að ef maður á að vera fullkomlega ærlegur erum við að ýta vandanum á undan okkur, það verður bara að segjast eins og er. Auðvitað er það afleiðing af einu stóru efnahagshruni. Við höfum átt í erfiðleikum með að taka á öllum þáttum þess, en hlutur Íbúðalánasjóðs liggur óbættur hjá garði og það er ekki tekið á vanda hans í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég spyr mig hvort við séum að ýta vandanum á undan okkur. Ég svara þeirri spurningu játandi.