141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði prýðilega grein fyrir þessu máli áðan. Ég vakti athygli á því að í miðju ferlinu, ég hygg að það hafi verið á árinu 2009 undir lok ferlisins skulum við segja, var lögunum breytt og sett inn það ákvæði að málið færi, þegar verkefnisstjórn hefði lokið sér af, til hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra. Ég hélt þessu algerlega til haga.

Það má auðvitað spyrja sig að því hvort skynsamlegt hafi verið að gera þessa lagabreytingu á þeim tíma sem hún var gerð. Ég reyndi hins vegar að sýna mikla sanngirni í málinu. Ég sagði að þetta fyrirkomulag væri ekki endilega svo galið. En ég vakti líka athygli á því sem mér finnst vera kjarninn í þessu máli: Þegar þarna er komið sögu eftir um áratugarvinnu með formlegum hætti þá leggur þessi aðferð gríðarlega mikla ábyrgð á herðar þeim hæstv. ráðherrum sem höndla með málið á síðustu metrunum, vegna þess að menn voru að fara af stað á sínum tíma með ákveðin ný vinnubrögð til að reyna að draga úr deilum. Og það var auðvitað ljóst að þegar málin fóru síðan um hinar pólitísku hendur hæstv. ráðherra — nú ætla ég ekki að tala um skítuga fingur í þeim efnum eins og mér heyrist einhverjir hafa verið að nefna hér — að það gat kallað á tortryggni. Þess vegna hlaut það líka að gera miklar kröfur til þessara hæstv. ráðherra um fagleg vinnubrögð.

Ég vakti athygli á því sem er einfaldlega staðreynd og enginn getur horft fram hjá að uppi voru miklar heitstrengingar úr stjórnarliðinu um að þetta mál mundi ekki njóta stuðnings og ríkisstjórnin sjálf gæti verið að veði ef ekki yrðu gerðar tilteknar breytingar. Á landsfundi annars stjórnarflokksins, VG, voru einfaldlega gerðar samþykktir í þá veru að það skyldi breyta þessu frá faglegum tillögum sem áður höfðu verið lagðar fram.