141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[11:34]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, með síðari breytingum. Þetta mál flyt ég ásamt öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Frumvarpið er í sjö greinum og hyggst ég í máli mínu fara yfir meginatriði greinargerðarinnar sem tiltekur ástæður þess að þingflokkurinn hefur ákveðið að leggja þessa tillögu fram en eins og glöggir menn hafa eflaust tekið eftir tengist málið mjög náið þingmáli um sama efni sem við höfum verið að ræða á undanförnum dögum og greidd voru atkvæði um rétt í þessu.

Með þessu frumvarpi er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þeim er ætlað að tryggja virkni laganna og skýrleika, svo og að tryggja að fagleg sjónarmið ráði við flokkun virkjunarkosta og gerð verndar- og orkunýtingaráætlunar. Allir sem fylgst hafa með umræðunni um þetta mál frá því að þingsályktunartillögu um það var teflt fram á síðasta þingi kannast við átökin sem um það hafa verið. Þau hafa að stærstum hluta snúist um að málið hafi um of fallið í pólitískan farveg á síðustu metrunum áður en þingmálið sjálft varð til.

Í frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ráðherra kalli saman að nýju þá verkefnisstjórn um rammaáætlun sem skilaði skýrslu sinni í júní 2011 og feli henni að gera tillögu um flokkun virkjunarkosta. Í skýrslunni raðaði verkefnisstjórnin virkjunarkostum í samræmi við niðurstöður og niðurröðun faghópa á grundvelli mikillar faglegrar vinnu og samráðs. Verkefnisstjórnin flokkaði virkjunarkostina ekki líkt og kveðið er á um í lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, enda var verkefnisstjórninni ekki falið að gera tillögu að slíkri flokkun. Eftir skil hennar fór í gang ógagnsætt ferli við flokkun virkjunarkosta þar sem ekki var að öllu leyti byggt á niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar heldur virðist ráðherra hafa látið pólitísk sjónarmið ráða för. Þarna urðu skil í því faglega ferli sem fram að því hafði einkennt alla vinnu að rammaáætluninni.

Mig langar til að benda á í þessu samhengi að alla tíð fram að þessum tímapunkti hafði málið verið unnið þverpólitískt. En þarna var engin tilraun gerð til að kalla fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna að málinu og leita þverpólitískrar sáttar um það hvernig málið kæmi inn í þingið. Þvert á móti lokuðu menn sig af, fulltrúar beggja stjórnarflokka, og komust að samkomulagi sem eflaust hefur kostað töluverð átök vegna þess að mjög langan tíma tók að koma þingskjalinu til þingsins. Það dróst svo vikum og mánuðum skipti og loksins þegar þingmálið varð til var því fylgt eftir með þeim orðum að það væri mikilvægt að þingið gerði engar breytingar á því vegna þess að samkomulagið sem lá því að baki væri svo viðkvæmt. Allt þetta dregur fram hversu augljós pólitísk afskipti voru af málinu alveg fram að framlagningu þess. Þess vegna er fram komið þetta frumvarp að okkar frumkvæði til að vinda ofan af þessari stöðu.

Það er brýnt að tryggja að sátt ríki um ákvarðanir um verndun og nýtingu landsvæða og orkuauðlinda. Það er í samræmi við stefnu stjórnvalda sem til margra ára hefur verið að byggja ákvarðanatöku um vernd og orkunýtingu á faglegum forsendum. Sú stefna var mörkuð árið 2003 í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og var síðan staðfest árið 2007 í verkefnisstjórn fyrir vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Ég kem aðeins inn á þá sögu á eftir. Þetta er allt saman rakið mjög vel í greinargerðinni sem ég byggi framsögu mína á.

Þessi stefna hefur falið í sér að hinar faglega unnu niðurstöður og tillögur yrðu lagðar fyrir Alþingi. Við teljum að því hafi ekki verið fylgt og þess vegna er þetta frumvarp fram komið. Í því er gert ráð fyrir því að ráðherra leggi tillögur verkefnisstjórnarinnar fram óbreyttar á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar þannig að óbreytt tillagan verði grundvöllur að umræðu á þinginu. Þannig ætti að vera tryggt að við ákvörðun um verndun og um orkunýtingu sé byggt á faglegum grundvelli, vísindalegum gögnum, gagnsærri aðferðafræði og þeirri miklu og ítarlegu vinnu sem verkefnisstjórnin hefur innt af hendi. Við viljum gefa henni tækifæri til að ljúka því verki.

Það ætti að vera óumdeilt að með því að byggja áætlunargerð á þessum grunni er líklegast að sátt geti skapast um þetta annars umdeilda mál. Við viljum leggja okkar af mörkum til að hefja þetta mál upp úr þeim pólitísku hjólförum sem það hefur haft svo ríka tilhneigingu til að fara í.

Eins og sjá má af frumvarpinu eru lagðar til aðrar breytingar sem allar miða að því að hin faglegu sjónarmið ráði för og til að skýra lögin betur og tryggja virkni þeirra betur. Breytingarnar eru þríþættar.

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 3. gr. laganna sem ætlað er að tryggja að unnt sé að meta allar hugmyndir um virkjunarkosti sem berast verkefnisstjórn, óháð því hvort þeir eru á friðlýstum svæðum eða annars staðar.

Í öðru lagi er um að ræða tillögu um breytingu á 5. gr. laganna sem miðar að því að tryggja að unnt verði að afla nauðsynlegra gagna til að ljúka flokkun virkjunarkosta sem falla í biðflokk á grundvelli þess að ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar til að unnt sé að ljúka flokkun þeirra í verndarflokk eða orkunýtingarflokk.

Í þriðja lagi er svo lögð til breyting á 10. gr. sem ætlað er að tryggja fagleg vinnubrögð og stuðla að sátt um gerð verndar- og orkunýtingaráætlunar. Hún felst í því að tillögur verkefnisstjórna um flokkun virkjunarkosta verði ávallt lagðar óbreyttar fyrir Alþingi án þess að möguleiki verði gefinn á breytingum þar á af hálfu ráðherra. Þessi breyting er því sambærileg þeirri sem er lögð til í 5. gr. frumvarpsins og reifuð var hér að framan. Henni er ætlað að tryggja að ákvarðanir um flokkun virkjunarkosta verði ávallt teknar á traustum, faglegum grundvelli. Í raun og veru er þetta í fullkomnu samræmi og í góðum samhljómi við það á hvaða grundvelli vinnan var sett af stað í upphafi. Ég ætla að koma aðeins inn á það.

Umræða um verndar- og orkunýtingaráætlun er auðvitað ekki ný af nálinni. Lengi hefur verið unnið að gerð rammaáætlunar. Með lögum nr. 48/2011 var fyrst settur lagarammi um áætlunargerð af þessu tagi. Áður hafði þó mikil vinna farið fram og má rekja hana allt aftur til ársins 1993, fyrir tæpum 20 árum, þegar umhverfisráðherra skipaði starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál sem var meðal annars falið að gera framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum til aldamóta. Sá hópur lagði til að unnin yrði rammaáætlun um nýtingu vatnsafls.

Árið 1999 var skipuð sérstök nefnd af Finni Ingólfssyni iðnaðarráðherra, en málið var þá í iðnaðarráðuneytinu. Það er ágætt að hafa það í huga í samhengi við þá atkvæðagreiðslu sem fór fram rétt áðan að það var iðnaðarráðherra sem árið 1999 skipaði sérstaka verkefnisstjórn til að vinna að gerð rammaáætlunar. Það er ágætt líka að fram komi að sú skipun var í samráði við umhverfisráðuneytið. Vinnan fór fram í fjórum faghópum. Hóparnir höfðu afmarkað hlutverk og fjölluðu um ákveðna þætti; náttúru- og menningarminjar, útivist og hlunnindi, þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og nýtingu orkuauðlinda. Mótuð var aðferðafræði og vinnureglur fyrir hópana sem fóru svo yfir gögn um virkjunarhugmyndir, mátu þær og skiluðu að lokum niðurstöðu sinni til verkefnisstjórnarinnar. Hún vann úr niðurstöðum hópanna og skilaði efnismikilli niðurstöðuskýrslu í nóvember 2003. Þar voru metnir alls 43 virkjunarkostir, 19 vatnsafls og 24 jarðhita.

Til að gera langa sögu stutta reyndist á þessum tíma erfitt að samþætta andstæð sjónarmið og því var haldið fram að pólitísk sjónarmið hefðu fengið að ráða för við gerð rammaáætlunar um orkunýtingu. Við erum því enn á þeim stað, um það bil tíu árum síðar, að flokkunum hefur mistekist að fella málið í þann farveg að eyða megi tortryggni um pólitísk afskipti af ramma málsins.

Í framhaldi var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2003 það sett sem eitt af helstu markmiðum að lokið yrði við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þannig að heildstætt yfirlit gæti fengist yfir nýtingarmöguleika landsmanna á þeim miklu verðmætum sem felast í beislun orku, eins og það var orðað. Lögð var áhersla á að saman færi nýting orkuauðlindanna og náttúruvernd. Ný verkefnisstjórn var skipuð 2004. Hún vann áfram með þær virkjunarhugmyndir sem lágu fyrir og lauk störfum 2007, skilaði þá framvinduskýrslu. Og enn stóð sami styrinn um málið.

Þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók til starfa árið 2007 var lögð áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar. Undirtónninn undir stefið var alltaf sá að leiða fram sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Til að tryggja slíka sátt var á þeim tíma tekin ákvörðun um að skipa faglega verkefnisstjórn og gefa áætluninni lögformlega stöðu þannig að sú áætlun sem lögð yrði fyrir Alþingi yrði gerð af fagfólki sem hefði besta þekkingu á viðfangsefninu. Áætlunin yrði þannig byggð á traustum, faglegum grunni og rökum. Það má segja að þarna hafi verið brotið blað í þessari vinnu því nú var áætlunin sett upp sem áætlun um bæði nýtingu og verndun. Ný verkefnisstjórn var skipuð í framhaldinu árið 2007. Þar komu þessar áherslur mjög vel fram um að skapa faglegan grundvöll fyrir ákvarðanatöku um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Það er ekki lengra síðan en á árinu 2007 sem menn bundu miklar vonir við að sætta mætti hin andstæðu sjónarmið um vernd og nýtingu með því að fella málið í þennan faglega farveg. En við erum hér árið 2012 enn í sömu umræðunni í raun og veru. Ég hef rakið að mér finnst að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi í sjálfu sér afskaplega lítið lagt af mörkum með því að loka sig af, með því að taka stjórnarandstöðuna ekki með í vinnuna sem unnin var áður en þingskjalið varð til, með því að taka mál, sem hefur verið unnið á faglegum forsendum í svo langan tíma með því augljósa markmiði að reyna að skapa sátt um málið, og gera þær einar breytingar á því sem eiga rætur sínar í stefnu flokksins sem vill ganga lengra í vernduninni. Þá er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að menn ætli sér að láta pólitíkina vera ofar faglegum rökum.

Með þessu er ég ekki að segja að það sé hægt að útiloka pólitíkina í þessu máli og það á ekkert endilega að gera það, alls ekki. Auðvitað verður að vera einhver pólitísk umræða um það. En ef menn vilja raunverulega skapa einhverja sátt sem lifir og varir til lengri tíma verða allir að leggja eitthvað af mörkum. Ég tel að það séum við að gera með þessu frumvarpi vegna þess að það er næsta víst að þegar þingskjalið verður til, verði málið fellt í þennan farveg, verða einstaka virkjunarkostir flokkaðir þar með öðrum hætti en maður hefði kannski helst viljað. Það er alveg við því að búast, en það skiptir ekki máli ef maður er að reyna að leiða fram sátt um jafnmikilvægt mál.

Ég held að það sé ekki ástæða fyrir mig til að fara yfir allan II. og III. kafla þessa þingmáls. II. kafli fjallar um það hvernig vinna að 2. áfanga rammaáætlunarinnar fór fram. Þar segir meðal annars að 84 virkjunarkostir hafi komið til mats. Í III. kafla greinargerðarinnar er fjallað um úrvinnslu niðurstaðna. Ég vek athygli á því að í 3. mgr. kaflans er fjallað um það hvernig breytingar voru gerðar sem ekki voru í góðu samræmi við niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. Annars vegar voru felldir út virkjunarkostir þar sem þeir þóttu falla utan gildissviðs laga nr. 48/2011. Við þessu bregðumst við með þessu þingmáli. Hins vegar voru fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk margir virkjunarkostir sem taldir eru upp í greinargerðinni og ég get nefnt þá hér: Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun 1 og Hágönguvirkjun 2. Allir þessir kostir voru fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk. Við teljum að þetta hafi verið í miklu ósamræmi við niðurstöður verkefnisstjórnarinnar. Að öðru leyti ætla ég ekki að rekja allan III. kafla greinargerðarinnar.

Í IV. kafla hennar er fjallað um verndar- og orkunýtingaráætlun út frá mikilvægi þess að hún sé byggð á faglegum grunni. Ég hef komið ágætlega inn á það að með því að nálgast viðfangsefnið þannig að við köllum til okkar færustu vísindamenn, okkar besta fagfólk á ólíkum sviðum og vinnum í góðu samráði við heimamenn og skipulagsyfirvöld á viðkomandi svæðum og nýtum þá þekkingu sem til staðar er í íslenska stjórnkerfinu hef ég trú á því að það sé hægt að leiða fram þessa sátt, ég trúi því. En til að það geti tekist þurfa allir að leggja eitthvað af mörkum. Miðað við það hvernig málið hefur verið meðhöndlað í þinginu finnst mér skína í gegn töluvert mikill og einbeittur vilji hjá stjórnarflokkunum til að fá sitt fram, nota meiri hlutann í þinginu til að ná fram pólitískri niðurstöðu í málið. Ég spyr þá sem vilja meðhöndla málið þannig og bið þá um að svara því hér: Hafa þeir yfirgefið hugsjónina um að hægt sé að leiða fram sátt í þessu máli? Hafa þeir aldrei haft trú á þeirri aðferðafræði? Trúa þeir að með því að fara þá leið sé í raun og veru hægt að hafa í gildi á hverjum tíma nýtingaráætlun sem eitthvert hald er í? (MÁ: Nýtingaráætlun?) Nýtingar- eða verndaráætlun. (Gripið fram í.) Hvort sem er. Ég ætla ekki að fara að eiga samtal við hv. þm. Mörð Árnason sem kallar fram í.

Ég velti því fyrir mér hvort menn hafi trú á því að hægt sé að hafa slíkar áætlanir í gildi sem hafa einhvern trúverðugleika nema þá fram að næstu kosningum í mesta lagi. Hættan sem menn eru að bjóða heim er einfaldlega sú að í upphafi hvers kjörtímabils fæðist nýtt pólitískt plagg um það hvernig menn hyggist haga þessum málum næstu fjögur ár.

Þetta þingmál er ekki lagt fram í þeim tilgangi að knýja alla þá nýtingarkosti sem til staðar eru í nýtingarflokk. Það er lagt fram í fullri alvöru og af einurð til að endurvekja þann anda sem lagt var af stað með í upphafi að reyna nú í einhverju stóru máli að ná saman um mikilvægar niðurstöður. Í þeim tilgangi er málið lagt fram.

Ég tek fram að jafnvel þótt ég hafi talið upp nokkra virkjunarkosti sem ég tel að hafi verið flokkaðir með öðrum hætti en niðurstaða verkefnastjórnarinnar gaf tilefni til geri ég mér fulla grein fyrir því að jafnvel þótt þeir færu í nýtingarflokk er enn langur vegur þar til raunverulegar framkvæmdir geta hafist. Þetta þekkja allir þeir sem um þessi mál fjalla af yfirsýn vegna þess að þá er eftir allur hinn formlegi „prósess“ fram að framkvæmdum. Hann getur falið í sér skipulagslegar hindranir eða umhverfislegar hindranir af öðrum toga, fyrir utan fjármögnun og annað þess háttar.

Virðulegi forseti. Ég læt eiga sig að fara nánar ofan í einstök efnisatriði málsins. Ég vil taka fram að ég vil að þetta mál verði sent til atvinnuveganefndar. Ég kalla eftir því að þingmenn allra flokka skoði alvarlega hvort hér sé ekki komin fram leið sem getur leitt fram aukna sátt um niðurstöðu í þessu efni þannig að við getum lokið því verki sem hófst fyrir hartnær 20 árum við að kortleggja þá kosti sem við höfum, fella í verndarflokk þau svæði sem rík sátt er um að verði óhreyfð. Með þessu frumvarpi getum við tryggt að jafnvel þótt þessi mál séu í biðflokknum sé hægt að stunda þar nauðsynlegar rannsóknir og menn geti haldið áfram með áform sín um virkjunarkosti sem verða felldir í nýtingarflokk en ekki að óþörfu, og ekki teknir úr honum án þess að nægileg og fagleg rök liggi að baki. Ég kalla eftir þessu.