141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

skiptileigusamningar fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl.

150. mál
[16:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl.

Með frumvarpi þessu er lagt til að neytendavernd á sviði skiptileigusamninga sé tekin til heildarendurskoðunar. Byggir frumvarpið á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB, um neytendavernd, að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til lengri tíma og endursölu- og skiptasamninga. Tilskipunin leysti af hólmi eldri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um skiptileigusamninga sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 23/1997, um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis.

Frá gildistöku laga nr. 23/1997 hefur orðið mikil þróun á markaði fyrir skiptileigusamninga. Fram á sjónarsviðið hafa komið ný afbrigði slíkra samninga sem falla utan gildissviðs eldri tilskipunarinnar. Margir þessara nýju tegunda samningar voru gerðir í þeim eina tilgangi að sniðganga gildandi reglur og hefur það valdið ýmsum vandamálum fyrir neytendur. Til að veita neytendum betri vernd og styrkja jafnframt stöðu þeirra seljenda sem sætt hafa ósanngjarnri samkeppni frá aðilum sem ekki hafa hlítt gildandi reglum var eldri tilskipunin tekin til endurskoðunar. Var afrakstur þeirrar vinnu tilskipun sú sem hér er innleidd.

Með frumvarpi þessu er lagt til að íslensk löggjöf sé uppfærð til samræmis við þá neytendavernd sem nú er við lýði á Evrópska efnahagssvæðinu. Með frumvarpinu hefur neytendavernd verið aukin frá því sem áður gilti. Helstu nýmæli þess eru rýmra gildissvið en undir það falla, auk skiptileigusamninga, samningar um orlofskosti til lengri tíma og endursölusamningar. Einnig falla nú undir það skiptileigusamningar sem gilda lengur en í eitt ár en áður var gerð krafa um þrjú ár. Upplýsingaskylda seljanda hefur verið hert og skýrð en honum ber að veita neytanda með nægum fyrirvara ítarlegar upplýsingar um helstu atriði samningsins svo að neytandinn geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort af samningi verður eða ekki. Réttur neytanda til að falla frá samningi hefur verið aukinn frá því sem áður gilti. Nú skuldbindur samningur neytanda ekki fyrr en 14 dögum frá því að hann er undirritaður og þarf neytandi ekki að tilgreina nokkra ástæðu fyrir uppsögn sinni. Að öðru leyti vísa ég til almennra athugasemda með frumvarpinu um þær breytingar sem lagðar eru til.

Við samningu frumvarpsins var litið til löggjafar annarra Norðurlandaþjóða enda rík hefð fyrir góðu og öflugu norrænu samstarfi á sviði neytendaréttar. Það er einnig til þess fallið að efla norræna réttareiningu á sviði neytendaverndar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.