141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gjaldeyrisstaða Landsbankans.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í síðustu viku kom út rit Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Seðlabankinn nefnir að þessu sinni sem eina helstu ógn við fjármálastöðugleika í landinu að Landsbanki Íslands hafi ekki tryggt sér endurfjármögnun á þeim lánum sem tekin voru við stofnun hans árið 2009. Þannig segir Seðlabankinn að ef ekki komi til endursamninga um þessar skuldir, og er þá reyndar vísað bæði til skulda Landsbankans og annarra skulda, geti orðið svo mikill þrýstingur á gengi krónunnar að losun fjármagnshafta yrði erfiðari en ella.

Í milljörðum erum við að tala um að Landsbankinn þurfi að greiða um 69 milljarða að meðaltali á ári á árabilinu 2015–2018. Þetta er allt saman byggt á samningum sem gerðir voru á árinu 2009 á milli nýja og gamla bankans. Spurning mín til efnahagsráðherra er þessi: Kann að vera að menn hafi gert hrapalleg mistök þegar nýja bankanum var komið á stofn með svona skökkum gjaldeyrisjöfnuði, að bankanum hafi verið gert að standa í skilum með þetta hrikalega háar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri án þess að hafa fengið erlendar eignir á móti? Kann að vera að þetta hafi verið slík mistök?

Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem Seðlabankinn dregur upp, nefnilega þeirri að fjármálastöðugleika í landinu sé ógnað vegna þess hvernig frá þessum samningum var gengið? Í stuttu máli getur bara tvennt gerst ef bankanum tekst ekki að endursemja um lán sín: Bankinn verður þá að ryðjast inn á íslenska markaðinn í leit að erlendu fjármagni til að standa í skilum og það mun, grípi Seðlabankinn ekki inn í, hvorki meira né minna en hafa í för með sér hrun íslensku krónunnar eða að Seðlabankinn ákveður að grípa þá inn í og selja gjaldeyri í gríð og erg, gjaldeyri sem hefur verið tekinn að láni. Kostirnir eru því ekki beint brattir sem við stöndum frammi fyrir ef Landsbankanum mistekst að endurfjármagna þessar skuldir.