141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

sérmerking á vörum frá landtökubyggðum.

127. mál
[16:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að taka þetta mál upp og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir svar hans. Þetta er mál sem mér finnst skipta miklu að við gefum gaum og reynum að vinna að.

Hæstv. ráðherra svaraði því játandi og taldi koma til greina að sérmerkja vörur sem fluttar eru inn frá landtökubyggðum Ísraels fyrir botni Miðjarðarhafs. Mér leikur forvitni á að vita nánar hvernig það yrði best gert. Ég spyr vegna þess að ég hef verið með í undirbúningi þingmál sem lýtur að sama efni, þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að vinna að þessu. Ef eitthvert slíkt mál er til vinnslu á vettvangi ríkisstjórnarinnar og kæmi hér inn væri það auðvitað hið besta mál. Ég vildi gjarnan heyra betur frá hæstv. ráðherra hvort hann telji að málið sé á því skriði að einhverrar niðurstöðu sé að vænta á næstunni (Forseti hringir.) eða hvort gagnlegt væri að fá málið í þingsal í formi þingsályktunartillögu.