141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið alveg skýrt fram í þessari umræðu um atkvæðagreiðsluna að drjúgur hluti þingmanna telur að málið eigi að fara í atvinnuveganefnd. En mér finnst hins vegar ekki talað af nægilega mikilli virðingu um hinn hluta þingmanna sem vill að það fari í umhverfis- og samgöngunefnd og byggir það á ákveðnum sjónarmiðum.

Ég hef ítrekað tekið eftir því í umræðunni að látið er að því liggja að þeir sem eru þeirrar skoðunar að málið eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd séu einhvers konar fylgifiskar þeirra sem ráða en geti alveg örugglega ekki byggt þau sjónarmið sín á málefnalegum forsendum.

Þetta er auðvitað dálítið stórt deilumál sem við erum að glíma við. Hvort á rammaáætlun meira að vera umhverfismál heldur en atvinnumál? Það er mjög athyglisverð rökræða sem þarf að fara fram í samfélaginu. Og ég held að við séum að upplifa það núna, sem betur fer að mínu mati, að hér er meiri hluti á þingi sem telur rammaáætlun eiga frekar heima í (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefnd, sem fer með umhverfismál, en vissulega sé það líka atvinnumál. (Forseti hringir.)

Svo vil ég vekja athygli á ákveðnum tækjabúnaði. Við erum með takka (Forseti hringir.) hérna og töflu til að útkljá svona mál og í því birtist (Forseti hringir.) líka sjálfstæði þingsins þannig að ég legg til að drífa í því.