141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi sjónarmið. Ég held að þetta sé partur af heildarmyndinni, að flugvöllurinn sé órjúfanlegur hluti af því hvernig við höfum byggt samfélagið upp.

Auðvitað hafa samgöngur og allar aðstæður á því sviði breyst mjög mikið. Ég hugsaði áðan 30 ár aftur í tímann. Ég man líka eftir því þegar ég var að keyra norður í Húnavatnssýslu meira og minna á malarvegum alla leið. Þetta hefur allt gerbreyst. Það er orðið allt annað að ferðast með bílum á milli staða enda hefur áherslan í innanlandsfluginu breyst mjög mikið. En niðurstaðan hlýtur að verða sú að það þarf að vinna að sátt í þessu máli. Þeir sem eru þeirrar skoðunar að völlurinn verði að fara verða að hlusta á það sjónarmið, þann víðfeðma stuðning sem er við það, að við höldum þjónustunni óskertri þarna. Það er mergurinn málsins. Stutt er í þær fyrirhuguðu breytingar sem hér er rætt um og því er málið lagt fram jafnákveðið og raun ber vitni.